Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var að vitna í er sérstaklega það sem hv. þingmaður nefnir varðandi uppbyggingu þeirra. Það er það sem ég vitna í þegar ég tala um að ég sé ekki sammála þeirri nálgun af því að ég hef talið að við höfum sett verulega fjármuni í þetta, en eins og ég sagði komust þeir bara ekki allir í vinnu, því miður. Ég er alveg sammála því að við þurfum að gera betur víða og m.a. að búa til starfsaðstæður sem fólk vill fara inn í. Samt sem áður hefur líka komið fram hjá okkur að markmiðið sem við vorum að reyna að ná með betri vinnutíma virðist einhvern veginn ekki hafa skilað sér. Það eru hreinlega ekki allir sáttir við það fyrirkomulag. Það má vel vera að það snúi að útfærslunni og öðru slíku, hreinlega því hvernig stofnanir útfæra það frekar en að fólk vilji ekki vinna fulla vinnu, hafi frekar viljað vera í hlutastarfi og taka þar af leiðandi að sér einhverja aukavinnu eða bara að vera í 100% starfi. Við vitum alveg að vaktavinna er mjög erfitt starf og margir eru ekki í því, eins og hv. þingmaður nefndi. En það er nú víða um heim, eins og við höfum líka heyrt, m.a. af hálfu forstjóra Landspítalans sem við bæði höfum heimsótt og hefur komið til okkar á fundi, að það eru allt aðrar kröfur sem yngra fólk gerir í dag. Sjúkrahúsunum, af því að mér finnst óþægilegt að tala alltaf bara um eitt, hefur kannski gengið illa að ná utan um það.

Það sem mig langaði líka aðeins að spyrja um, af því að þingmaðurinn segir í síðustu setningunni í nefndaráliti sínu, með leyfi forseta: „Landspítali starfar ekki einn og sér heldur í kerfi sem þarf að virka.“ Um það erum við alveg sammála. Þess vegna var ég að reyna að benda á það áðan að mér finnst einhvern veginn að við höfum ekki komið (Forseti hringir.) kerfinu okkar úr þessum sílóum sem hver og ein stofnun er með, er hún ekki sammála mér í því að það sé eitthvað sem við þurfum að reyna að gera, að hafa meira flæði (Forseti hringir.) á milli stofnana til þess að við nýtum fólk og rými betur?