Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er alveg sammála því og það er eitt af því sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra er kominn með af stað, þ.e. þau verkefni er varða það að koma því fólki út á vinnumarkaðinn sem það getur og ekki hvað síst fólki sem hvergi hefur komist að. Það er svo mikilvægt að þessi hvati sé til staðar. Það er alveg frumskilyrði. Ég tek undir það. Þú ferð ekkert út á vinnumarkaðinn ef þú færð í rauninni einn þriðja af því í vasann, talandi um að vinna við hliðina á einhverjum. Það eru bara óboðlegt að svo sé. Ég er mjög ánægð með að sú vinna er hafin að búa til einhvern einhvers konar kerfi utan um það. Það er það fyrsta sem ráðherra hefur verið að gera núna þannig að við erum að stíga skref og vonandi kemur fram mál um það strax núna í vetur.

Mig langaði að öðru leyti að velta því upp með þingmanninum, af því að hér eru tiltekin tvenn samtök sérstaklega í breytingartillögu annars vegar og svo í nefndaráliti, að það er svo mikilvægt þegar við erum að fjalla um áætlun að það eru yfirleitt stóru línurnar. En síðan þegar við erum að gera drög að einhvers konar breytingum til einhverra tiltekinna stofnana eða eitthvað slíkt þá er það alla jafna gert í fjárlögum. Við vitum ekkert hvort Alzheimer-samtökin, SÁÁ eða annað er inni. Það er ekki ljóst fyrr en ráðherra kemur með sína tillögugerð hver niðurstaðan verður. En sannarlega er þörfinni komið á framfæri við nefndina, en að mínu mati eru þetta kannski tillögur sem eiga heima meira undir fjárlagagerðinni sjálfri en stefnumótuninni sem á að vera í þessu.