Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:21]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið og bara þannig að það sé alveg skýrt, að þegar ég segi ég í mínum lokaorðum að hér sé um áætlun að ræða og túlka hana sem slíka þá var ég að fara yfir það í orðum mínum rétt þar á undan að þau áföll sem íslenska ríkið og íslensk þjóð hefur lent í núna á síðustu árum, bæði varðandi Covid og nú síðast innrás Rússa í Úkraínu — auðvitað hafa svona atburðir áhrif á áætlanir og stefnu og markmið ríkisins. Það var bara það sem ég var að meina.

Ég er algerlega sammála þingmanninum um það hver markmið og stefna fjármálaáætlunarinnar er. Að sjálfsögðu er þetta stefna stjórnvalda og markmið ríkisstjórnarinnar sem eiga að koma þarna fram til ársins 2027. Ég tel það vera mjög skýrt í þessari áætlun hver þau eru og að þau komi fram í þessari áætlun. Það sem ég var einfaldlega að benda á er að það er bara með þetta eins og önnur mannanna verk að ekkert af þessu er meitlað í stein og ef einhverjir atburðir verða, eins og ég var að telja upp hér að framan, sem við sjáum ekki fyrir hverjir eru akkúrat í dag þegar við stöndum hér inni og erum að taka þessa umræðu, þá að sjálfsögðu verðum við og munum breyta þessari fjármálaáætlun. Það var eiginlega punkturinn sem ég var að koma inn á. En ég tek algjörlega undir með þingmanninum hvað varðar í raun og veru markmiðin og stefnuna.