Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

dómstólar.

893. mál
[15:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem leiða af breytingum á fyrrnefndum lögum.

Á vormánuðum 2022 var skipaður starfshópur um sameiningu héraðsdómstóla og honum falið að taka saman upplýsingar um þau atriði sem huga þyrfti að við sameiningu átta héraðsdómstóla landsins í einn. Einnig að koma með tillögur að útfærslu að slíkum breytingum, meta hagkvæmni af sameiningunni og þörf á lagabreytingum. Frumvarp þetta byggist einkum á skýrslu starfshópsins og þeim tillögum að breytingum á lögum um dómstóla sem henni fylgdu. Með frumvarpinu er lagt til að hinir átta héraðsdómstólar landsins verði sameinaðir í einn dómstól undir nafninu Héraðsdómur. Lögð er áhersla á að styrkja héraðsdómstigið, skapa forsendur fyrir því að auka gæði við vinnslu dómsmála og gera stjórnsýslu dómstigsins skilvirkari, gegnsærri og markvissari. Forsenda sameiningarinnar er sú að Héraðsdómur hafi starfsstöðvar á landsbyggðinni þar sem héraðsdómstólar eru nú staðsettir og horft er til þess að efla og styrkja starfsstöðvarnar. Ætla má að ná megi fram einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu fyrir dómstólana og auknu eftirliti með henni. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að fjárframlög og mannauður dómstólanna nýtist betur og aukið hagræði náist við meðferð dómsmála, borgurunum til hagsbóta. Þá býr frumvarpið einnig í haginn fyrir frekari þróun stafrænnar meðferðar dómsmála. Auk þess verði rýmri heimildir um hvar megi taka dómsmál fyrir, eftir atvikum með fjarfundabúnaði, til þess að draga úr óþarfa ferðalögum og tímasóun aðila dómsmála, málflytjenda og starfsmanna dómstólanna og í því tilliti auka lífsgæði, styrkja búsetu um allt land og styðja við baráttuna í loftslagsmálum.

Lagt er til að starfsstöðvar Héraðsdóms á landsbyggðinni verði lögbundnar sem og lágmarksfjöldi starfsmanna á hverri starfsstöð þannig að þrír starfsmenn verði að lágmarki starfandi á hverri starfsstöð, þar af a.m.k. tveir héraðsdómarar eða einn héraðsdómari og einn dómarafulltrúi. Sú tilhögun þykir til þess fallin að styrkja faglegt starf héraðsdómstigsins á landsbyggðinni og efla starfsemi þess þar. Lagt er til að yfirstjórn dómstólsins hafi aðsetur í Reykjavík og er þá fyrst og fremst horft til dómstjóra og skrifstofustjóra, en sjá má fyrir sér að varadómstjóri sem og starfsfólk sem vinnur náið með dóm- og skrifstofustjóra vegna daglegrar stjórnunar geti starfað á hvaða starfsstöð Héraðsdóms sem er samkvæmt ákvörðun dómstjóra, eftir því sem þarfir dómstólsins krefjast.

Lagt er til að dómstjóri og varadómstjóri Héraðsdóms verði skipaðir af stjórn dómstólasýslunnar til 5 ára, að undangenginni auglýsingu meðal héraðsdómara um embættið. Þá er lagt til að dómstjóri skipi Héraðsdómi skrifstofustjóra og starfsheiti löglærðra aðstoðarmanna dómara verði breytt í dómarafulltrúa, án þess þó að breytingar verði gerðar á inntaki starfsins eða réttarstöðu þeirra. Af framangreindu leiðir að allir héraðsdómarar myndu framvegis starfa við einn dómstól og að úthlutun allra mála í héraði yrði á hendi eins dómstjóra. Dómstjóri gæti úthlutað málum til héraðsdómara og dómarafulltrúa og falið héraðsdómurum meðdómendastörf án tillits til þess hvar þeir hefðu fasta starfsstöð og án tillits til þess á hvaða starfsstöð málin væru rekin. Þannig yrði m.a. betur unnt að jafna álag. Því tengt er lagt til að rýmkað verði hvar taka megi dómsmál fyrir en tillaga þess efnis í frumvarpinu lýtur að því að heimild héraðsdómara til að taka mál fyrir utan umdæmis síns verði ekki lengur takmörkuð við þinghöld eftir þingfestingu máls, þó þannig að mál skuli að jafnaði taka fyrir þar sem til hagræðis þykir fyrir rekstur þess.

Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á hlutverki og verkefnum dómstólasýslunnar. Þær lúta í stórum dráttum að því að staða stofnunarinnar gagnvart Héraðsdómi verði að mestu leyti sú sama og verið hefur gagnvart Landsrétti og Hæstarétti frá 1. janúar 2018. Auk þess er lagt til að dómstólasýslunni verði fengnar auknar heimildir til að setja reglur, þar á meðal um úthlutun dómsmála og um undirbúning að skipun dómstjóra og varadómstjóra Héraðsdóms. Við vinnslu frumvarpsins var horft til sérstöðu dómvaldsins skv. 2. gr. og V. kafla stjórnarskrárinnar og sérstaklega til þess að ekki yrði vegið að sjálfstæði þess. Staða héraðsdómara mun ekki raskast verði frumvarpið að lögum heldur munu þeir áfram gegna embætti með sömu staðsetningu og sömu lögkveðnu kjörunum. Dómstjórar núverandi héraðsdómstóla munu halda launum sínum sem dómstjórar út skipunartíma sinn sem dómstjórar og áfram jafnframt gegna embættum sem héraðsdómarar. Starfsfólk héraðsdómstóla, sem verður í starfi þegar héraðsdómur tekur til starfa, mun verða starfsfólk Héraðsdóms.

Sameining héraðsdómstóla landsins í einn þykir sem slík ekki vera til þess fallin að hafa áhrif á jafnrétti eða stöðu kynjanna, hvorki að því er varðar aðila sem leita til héraðsdómstigsins né héraðsdómara og starfsfólk héraðsdómstólanna. Gert er ráð fyrir að kostnaður sem leiðir af frumvarpinu rúmist innan ramma gildandi fjárlaga. Þegar ráðist er í jafnmiklar breytingar á uppbyggingu stofnana réttarkerfisins og hér er lagt til er mikilvægt að gefinn verði rúmur aðlögunartími frá lögfestingu til gildistöku laganna. Er því lagt til að sameining héraðsdómstólanna taki gildi 1. ágúst 2024 en dómstjóri verði skipaður frá 1. mars 2024 til þess m.a. að undirbúa sameiningu og stofnun dómstólsins. Gangi sameiningaráformin eftir kallar það á ýmsar lagabreytingar í framhaldinu og því er gert ráð fyrir að á komandi vetri verði lagt fram annað frumvarp um nauðsynlegar breytingar á réttarfarslöggjöf.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir helstu atriði frumvarpsins en að öðru leyti vísast til greinargerðar þess og skýringar við einstök ákvæði. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.