Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

dómstólar.

893. mál
[15:13]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svar sitt. Ég er þingmaður Norðvesturkjördæmis, eins dreifbýlasta kjördæmis landsins, og það er mjög mikilvægt fyrir Vestfirðinga að það sé Héraðsdómur Vestfjarða, mikilvægt fyrir Vestlendinga að það sé Héraðsdómur Vesturlands. Það er mikilvægt fyrir sjálfsmynd þessa héraðs. Eins og góður maður sagði, hvert sveitarfélag í landinu vildi hafa sinn sýslumann, sinn bæjarstjóra, sinn kaupfélagsstjóra og sinn prest. Það er verið að grafa undan þessu öllu saman með því að setja allt í eina stofnun. Eins og Halldór Laxness sagði: Það er dýrt að vera Íslendingur. Vissulega er minni framleiðni úti á landi og óhagkvæmari í þessum dreifðu byggðum. Lífskjör þar eru verri og störf eru að sogast hingað á höfuðborgarsvæðið og hafa gert áratugum saman. Það er verið að setja þetta í eina stofnun þegar það hefði verið hægt að gera þetta allt saman miklu einfaldara með því að Héraðsdómur Vestfjarða, Héraðsdómur Vesturlands og Héraðsdómur Norðurlands vestra væru enn þá sjálfstæðar stofnanir en það yrði bara aukin samvinna. Þær yrðu efldar með þeim hætti að mál af höfuðborgarsvæðinu væru tekin til afgreiðslu þar, þau mál sem væri hægt að vinna með rafrænum hætti. Það tel ég að hefði verið miklu vægara úrræði, miklu vægari leið en hér er verið að fara. Og varðandi það sem Ríkisendurskoðun er að segja þá búum við í fámennu landi, mjög stóru og fámennu landi, og það er endalaust hægt að segja að það sé hægt að auka samlegðaráhrif og spara pening og annað slíkt með því að sameina allt í eitt embætti. Ég vil benda á að núverandi ríkisstjórn hefur ekki gengið á undan með góðu fordæmi þegar hún var að fjölga ráðuneytunum, fjölga ráðherrum. Það kostaði nú sitt. Og varðandi fækkun stofnana ríkisins og örstofnana þá vil ég benda á að það eru ekki bara dómstólar sem eru að úrskurða í deilumálum. Það eru líka úrskurðarnefndir á vegum ríkisins, framkvæmdarvaldsins. Hvað líður sameiningu þeirra? Þar er mörg matarholan fyrir ýmsa sem eiga sæti í þessum úrskurðarnefndum og ekki er neitt að frétta af sameiningu úrskurðarnefnda. (Forseti hringir.) Ég tel að hér sé verið að beina máli gegn stofnunum sem eru raunverulegar ríkisstofnanir sem eru mjög mikilvægar í héraði (Forseti hringir.) á meðan það er ekki verið að taka á sparnaði eins og t.d. í úrskurðarnefndum ríkisins.