Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

dómstólar.

893. mál
[15:15]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst af öllu vil ég segja að ég skil áhyggjur hv. þingmanns og margir hafa nefnt í þeim efnum að sporin hræða. Það er einmitt á grundvelli þess sem ég nálgast þessi mál, bæði sameiningu héraðsdómstólanna og sameiningu sýslumannsembættanna, með þeim hætti sem raun ber vitni í frumvörpunum sem liggja hér fyrir. Það eru þrír dómstólar í kjördæmi hv. þingmanns, í Borgarnesi, á Sauðárkróki og á Vestfjörðum. Það eru liðin mörg ár síðan Halldór Laxness lét þessi orð falla og landið var svolítið öðruvísi þá og íbúasamsetning þess. (Gripið fram í.) Ég held einmitt að þetta sé mjög mikilvægur þáttur í því að auka fjölbreytni í störfum úti á landi. Þetta sé lykillinn að því, eins og við búum um það í þessu frumvarpi, að fjölga störfum úti á landi, opinberum störfum. Það hefur reyndar verið ein af forsendum allra þeirra breytinga sem ég legg til, hvort sem er í löggæslunni, dómstólunum eða hjá sýslumönnunum, að fjölga störfum úti á landi og standa við fyrirheit sem gefin hafa verið af stjórnvöldum um að fjölga störfum úti á landi. Við búum nefnilega í stóru og fámennu landi og þetta er gríðarlega mikilvægt, það er hárrétt hjá hv. þingmanni. Hann nefnir hér úrskurðarnefndirnar. Svo vill til að þetta hef ég skoðað alveg sérstaklega og þær eru 61 talsins. Af þeim eru sumar stærri og meiri um sig en aðrar eins og úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismála og kærunefnd útlendingamála, svo eitthvað sé talið. Hinar, margar hverjar, eru matarholur sem eru í skúffum lögmanna eða jafnvel háskólafólks hér í bænum. Við höfum verið að rýna þetta og það er sérstök rýni reyndar í gangi gagnvart þessu líka hjá fjármálaráðuneytinu, einmitt með tilliti til þess að við teljum að þessum nefndum eða starfsemi þeirra verði betur komið fyrir úti um land hjá sýslumönnum. Þetta er eitt af þeim stóru atriðum sem við erum að skoða með tilliti til þess að geta fært starfsemi á sýslumannsskrifstofurnar, þegar (Forseti hringir.) það verður orðið að einu embætti, dreift því um landið á hverjum tíma, einmitt til þess að styrkja þá stöðu að þjónustan verði til staðar úti á landi í breyttu umhverfi í stjórnsýslu opinberra stofnana.