Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

dómstólar.

893. mál
[15:27]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir andsvarið. Ég heyri að við erum á sömu skoðun hvað þetta varðar. Reynslan er bitur af því þegar verið er að færa yfirstjórn slíkra stofnana á höfuðborgarsvæðið líkt og er verið að gera í þessu máli. Reynslan sýnir okkur að þjónustan hefur verið að færast í auknum mæli á höfuðborgarsvæðið, sem er þróun sem við í Framsókn erum ekki hlynnt. Við viljum tryggja að það séu störf og byggð úti um allt land og það erum við að gera með þessum ítarlega fyrirvara við málið. Við erum að tryggja að slíkt verði haft að leiðarljósi við vinnuna á þessu frumvarpi og að við séum algjörlega með það á hreinu að hagsmunir íbúanna skuli ráða för í þessu máli, ekki hagsmunir einstakra dómara, dómstóla eða yfirstjórnar héraðsdómstóla. Að mínu og okkar mati þá þurfum við að gæta að byggðasjónarmiðum á öllu landinu. Við eigum frekar að efla starfsstöðvarnar eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Ég vona innilega að það verði raunin en ekki að allt mokist á höfuðborgarsvæðið, sem er þróun sem við aðhyllumst ekki í Framsókn.