Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

856. mál
[15:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Það voru sláandi upplýsingar sem komu fram í hans máli og dregnar eru fram í greinargerð með þessu ágæta frumvarpi. Það er afskaplega mikilvægt að styðja fórnarlömb heimilisofbeldis við að komast út úr aðstæðum sem þau jafnvel upplifa sig föst í og mörg dæmi eru um. Það er mikilvægt að lögin séu skýr og að verklag við móttöku verði jafnframt tilbúið í kjölfar lagasetningarinnar. Eins og hæstv. ráðherra talaði um í ræðu sinni þá er heimilisofbeldi umfangsmikið samfélagsmein og það er oft þannig að þeir sem verða fyrir heimilisofbeldi eru of hræddir til að segja frá. Í þessu frumvarpi sem hæstv. ráðherra er að mæla hér fyrir er talað um tilkynningu til lögreglu ef sjúklingur biður um það sjálfur. En hvað ef heilbrigðisstarfsmaður er sannfærður um að sjúklingurinn sé fórnarlamb heimilisofbeldis og hefur jafnvel orðið var við það aftur og aftur, er þá ekkert hægt að gera? Er þá þagnarskylda? Verður sjúklingurinn að biðja um tilkynningu? Er það þannig sem lögin virka? Samkvæmt þessu ákvæði sem hér er verið að mæla fyrir er það alveg skýrt að þetta má gera ef sjúklingur biður um það en ég bara spyr: En ef hann biður ekki um það en allir vita hvað hefur gerst og í hvað stefnir?