Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

889. mál
[18:38]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir hans andsvar. Mér finnst þetta vera mál sem hv. þingnefnd þarf að fara yfir. Markmiðin eru alveg skýr, hvað við erum að gera, og það er búið að gera nokkrar atlögur og mikil vinna á bak við þetta þannig að við fáum að njóta þess hugvits og þekkingar og fjárfestingar sem hefur farið í þessa aðferð sem hefur vakið heimsathygli. Það er ekki ætlunin að gera öðrum erfitt fyrir sem ætla sér sambærilega hluti. Við skulum hafa það í huga, af því að einhver kynni að velta því fyrir sér við að hlusta á þessa umræðu af hverju hún sé svona tæknileg, að það er náttúrlega líka einfaldlega vegna þess að við erum að gera hluti sem hafa ekki verið gerðir áður. Ég fagna því þegar hv. þm. Andrés Ingi Jónsson og hv. þm. Ingibjörg Ólöf Isaksen og aðrir eru að láta sig málið varða og velta því fyrir sér hvað megi betur fara þegar kemur að þessari lagasetningu. Þannig að ég vona að hv. þingmaður fyrirgefi mér það þó að ég hafi ekki mjög sterka skoðun á spurningu hv. þingmanns, aðra en þá að ég tel mikilvægt að hv. þingnefnd fari yfir það því að þetta er málefnaleg ábending frá hv. þingmanni.