154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[15:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Í tilkynningu í fjölmiðlum á sunnudaginn var tilkynnt um að stjórn Kviku hefði ákveðið að taka tilboði Landsbankans um kaup á hlutafé í TM tryggingum hf. fyrir tæpa 29 milljarða og að Landsbankinn myndi greiða fyrir hlutaféð með reiðufé. Þetta var í fyrsta skipti sem ég heyrði að Landsbankinn hefði ákveðið að leggja fram skuldbindandi tilboð í tryggingafélagið. Allar vangaveltur um að ég hafi mátt vita, lesið í orðróm eða sofið á verðinum eru tilraun til að draga athygli frá kjarna máls. Stefna stjórnvalda eins og hún hefur birst í stjórnarsáttmála, eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki, auk fjárlaga og fjármálaáætlunum síðustu ára og í fjölmiðlum er skýr. Kjarni málsins er þessi: Það er ekki í samræmi við eigendastefnu ríkisins að ríkisbanki kaupi tryggingafélag á markaði. Ég er í grundvallaratriðum ósammála því að ríkisbanki sem ríkið endaði með í fanginu og ætlaði að selja innan fimm ára en á enn auki umsvif sín, stígi inn á nýjan samkeppnismarkað og verji 29 milljörðum í kaup á tryggingafélagi á markaði.

Við skulum staldra aðeins við þessa staðreynd. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar stofnsetti Bankasýsluna 2010 til að selja Landsbankann innan fimm ára. Í millitíðinni eignuðumst við Íslandsbanka og erum enn í miðju verki við að losa um það eignarhald. Það er því með mestu ólíkindum að við séum ekki bara með Landsbankann á efnahag á árinu 2024 heldur er hann farinn að sækja inn á tryggingamarkaðinn. Svo höfum við í millitíðinni eignast hóp stjórnmálamanna sem er bara alfarið orðinn á móti því að losa aftur um eignarhaldið. Ég styð hins vegar þá stefnu að ríkið haldi á kjarnaeignarhlut, sem gæti verið á bilinu 35–40%, en skrái svo bankann og fái að öðru leyti dreift eignarhald.

Þetta er meginástæða þess að ég hef gert alvarlegar athugasemdir við stöðu þessa máls. Hér hefur ríkisfyrirtækið Landsbankinn farið gegn þeirri stefnu sem við, sem erum lýðræðislega kjörin til að haga eignarhaldi á ríkisfyrirtækjum, höfum lagt upp með. Við getum rætt um það hvernig þetta gerist. Svarið við því er svo sem augljóst fyrir mér. Það er gert ráð fyrir því að bankaráð Landsbankans haldi Bankasýslunni upplýstri og leiti þar samráðs. Það virðist ekki hafa verið gert.

Þetta mál snýst um prinsipp. Þetta snýst um það hvað stjórnvöld hafa ákveðið um framtíð fjármálamarkaðarins og hlutverk ríkisins á honum. Í sérstakri eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki segir að stefnan sé að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálamarkaði og nýta það bundna fé sem þar er í innviði samfélagsins. Svo má benda á að væri Landsbankinn ekki að gera tilboð í tryggingafélag fyrir 29 milljarða gæti bankinn greitt viðbótararð í ríkissjóð allra landsmanna upp á marga milljarða. Á því á eigandi bankans að sjálfsögðu að hafa skoðun og hana hef ég, enda erum við að fjármagna aðgerðir til að stuðla að friði á vinnumarkaði, við glímum við kostnað vegna náttúruhamfara og annarra verkefna sem kosta og viðbótararðgreiðslur myndu hjálpa í því verkefni. Þetta snýst þess vegna ekki um það hver sagði hvað hvenær, þrátt fyrir að það henti ákveðnum stjórnmálamönnum ágætlega að dvelja þar frekar en að hafa skýra skoðun á stórri, pólitískri stefnumarkandi ákvörðun.

Frú forseti. Það kom fram hjá Bankasýslunni síðastliðinn sunnudag að hún hefði ekki fengið formlegt erindi frá Landsbankanum um viðskiptin en stofnunin fer með 98% hlut í félaginu og tæplega 99,8% atkvæðavægi og ber samkvæmt lögum að fara með eignarhald ríkisins á félaginu. Til að fylgja málinu eftir óskaði ég bréflega eftir því að Bankasýslan staðfesti við ráðuneytið hvort málið hefði verið borið undir stofnunina eða fengið umfjöllun í stjórn stofnunarinnar og hvað hafi komið fram á þeim fundum. Í því samhengi má benda á að í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki og ákvæði í lögum um Bankasýslu ríkisins og samningi milli bankans og Bankasýslu ríkisins eru lagðar umtalsverðar kvaðir á fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins og Landsbankann sérstaklega, í tilfelli samningsins, um upplýsingagjöf til eiganda um rekstur, efnahag og eignasölu eða kaup á eignum.

Samkvæmt eigendastefnu ber fjármálafyrirtæki að kynna Bankasýslunni fyrir hönd eiganda fyrirætlanir um meiri háttar breytingar á starfsemi þess. Sömuleiðis skuli tilkynna um annað sem er á döfinni hjá félagi og rétt þykir að eigandi sé upplýstur um ef sérstök ástæða þykir. Almennt er litið svo á að stjórn félagsins geti verið skylt að leggja málefni sem eru sérstaklega þýðingarmikil eða teljast óvenjuleg í starfsemi félagsins undir hluthafafund. Að mati ráðuneytisins teljast kaup á félögum á nýjum markaði til mikilvægra og umfangsmikilla ráðstafana. Þá er ekki síður mikilvægt að hafa í huga að í lögum um Bankasýslu ríkisins kemur fram að meginhlutverk Bankasýslunnar sé að sjá um samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið á eignarhlut í og tengjast eigendahlutverki þess. Ekki er gert ráð fyrir að ráðherra beini tilmælum til fjármálafyrirtækja vegna ákvarðana er snúa að eignarhaldi ríkisins eða rekstri fyrirtækisins en líkt og fram kemur í eigendastefnu kemur það þó ekki í veg fyrir að fjármálafyrirtæki geti upplýst ráðuneytið eða ráðherra um stefnumarkandi mál.

Fyrir utan upplýsingagjöf er einnig vert að nefna að í fyrrgreindum skjölum koma fram áherslur um stuðning við samkeppni og um að íslensk fjármálafyrirtæki séu í fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi. Hvorki eigendastefna né samningur við Landsbankann gefa tilefni til þess að fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins kaupi mikilvæga starfseiningu í eðlisólíkri fjármálastarfsemi.

Ég tel að það leiði af þessu að ekki sé ásættanlegt að stjórn bankaráðs Landsbankans beri ekki viðskipti af þessum toga undir eigendur félagsins, sem Bankasýsla ríkisins fer með fyrir þeirra hönd. Þá sé það heldur ekki til þess fallið að auka traust á eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Mál af þessum toga hefði átt að koma tímanlega til umfjöllunar í stjórn Bankasýslu ríkisins.

Í fyrrgreindu bréfi mínu til Bankasýslunnar óska ég einnig eftir því að stofnunin upplýsti hvort og þá með hvaða hætti hún hyggist bregðast við gagnvart Landsbankanum. Svarbréf stofnunarinnar barst ráðuneytinu 18. mars sl. og er það birt á vef hennar ásamt bréfi til bankaráðs Landsbankans. Í bréfinu kemur fram að stofnunin var ekki upplýst um þau viðskipti sem hér um ræðir og fékk fyrst að vita um þau þann 17. mars sl. um klukkan fimm. Tekur stofnunin hins vegar undir þau rök og þær áhyggjur sem ég setti fram í bréfi mínu til Bankasýslunnar og einnig kemur fram að bankaráð Landsbankans hafi 11. júlí sl. upplýst fyrri stjórn Bankasýslu ríkisins um áhuga bankans á að kaupa TM eftir að samrunaviðræðum Íslandsbanka og Kviku var slitið. Þá fékk stjórn Bankasýslunnar þann 20. júlí sl. upplýsingar um að ekki hefðu komist á formlegar viðræður milli aðila. Ekkert hafi í reynd heyrst síðan af málinu með formlegum hætti. Hélt stofnunin fund með Landsbankanum í gær, 19. mars, og sendi í framhaldinu bréf til bankaráðs þar sem óskað var ítarlegra skýringa á málinu, því ferli sem unnið var eftir og hvernig það samræmist eigendastefnu ríkisins og samningi milli Bankasýslunnar og bankans um almenn og sértæk markmið um rekstur bankans. Þá var þess krafist að aðalfundi bankans, sem boðaður var þann 20. mars, yrði frestað um fjórar vikur og hefur bankaráð orðið við þeirri kröfu. Mun Bankasýslan upplýsa ráðuneytið um framvindu mála.