154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:11]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er maður alveg ringlaður. Hæstv. ráðherra virðist vera búinn að gjörbreyta um málsvörn frá því að hún sendi bréf til Bankasýslunnar fyrir örfáum dögum. Nú talar hæstv. ráðherra eins og það hefði verið afar ófaglegt af sér að gefa út sérstaka yfirlýsingu um orðróm en í því bréfi er sérstaklega talað um yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra frá 6. febrúar síðastliðnum. Hvar er þessi yfirlýsing? Hvar hefur þessi yfirlýsing birst? Er í alvörunni verið að kalla það sérstaka yfirlýsingu frá hæstv. fjármálaráðherra að mbl.is hafi eitthvað eftir henni sem hafði birst í hlaðvarpinu Þjóðmálum nokkrum dögum áður? Hvers konar stjórnsýsla er þetta eiginlega? Mér heyrist á hæstv. ráðherra að hún hafi ekkert beitt sér á þessu tímabili sem ég spurði um, hafi ekki gripið til neinna ráðstafana vegna málsins. En ég trúi þó ekki öðru en að ráðherra hafi, hafandi sjálf gefið út sérstaka yfirlýsingu samkvæmt þessu bréfi, a.m.k. aflað sér upplýsinga um málið á þessu tímabili, enda er þetta undirstofnun hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) Ég ætla því að spyrja í seinni atrennu: Átti hæstv. ráðherra einhver samskipti við Bankasýsluna um þetta mál eða önnur mál á því tímabili sem ég spurði um frá 2. febrúar til 17. mars? (Forseti hringir.) Hvaða samskipti eru þetta? Átti hæstv. ráðherra einhver samskipti við Bankasýsluna um þetta mál eða yfir höfuð?

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir á ræðutíma.)