154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:30]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eftiráathugun að fara í málið með þessum hætti. Það liggur fyrir að hæstv. ráðherra hafði vitneskju um að þetta gæti verið yfirvofandi en einhverra hluta vegna virðist ráðherra ekki hafa gripið inn í og telur nú að það hafi verið Bankasýslan, sem Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur er búinn að slátra í raun og veru — það tekur enginn mark á Bankasýslunni lengur vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur sagði á sínum tíma: Við ætlum að leggja Bankasýsluna niður. Og hvers vegna á þá að nota hana sem spil í þessu? Nú á að kenna bankaráðinu um þessi mistök en síðast var það Bankasýslunni sem var slátrað. Og verður það niðurstaðan núna að bankaráðinu verði slátrað til að fela þau mistök sem er verið að gera hér?