154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[17:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Það sem er undir í þessu máli sem við ræðum hér eru algjört grundvallaratriði í íslensku samfélagi. Hér erum við að spyrja þeirrar grundvallarspurningar: Hvernig ætlar fyrirtæki í eigu ríkisins að haga sér á samkeppnismarkaði? Við höfum auðvitað dæmi um það að ríkið sé með fyrirferð á samkeppnismarkaði og við vitum að það er alltaf mjög umdeilanlegt hvernig fyrirtækið á að hegða sér þar. Hér undir líka er síðan stóra spurningin: Á ríkið yfir höfuð að eiga hlut í fjármálafyrirtækjum, hvað þá tveimur eða nánast helmingnum af stóru bönkunum þremur? Þetta er allt saman hangandi yfir okkur þegar við erum að ræða þetta mál.

Á ríkið að eiga tryggingafélög í gegnum ríkisbanka? Þetta er risaspurning og ég tilheyri flokki sem vill frekar fara í þá átt að losa um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum sem er líka partur af hinni eiginlegu eigendastefnu ríkisins. Það felur auðvitað í sér að kaup ríkisbanka á tryggingafélagi upp á 30 milljarða er eitthvað sem ekki á að eiga sér stað. Það hefur engin umræða farið fram um þetta hér t.d. á hinu háa Alþingi. Samt erum við að stefna hraðbyri í það að ríkið eigi stóran hluta af tryggingamarkaðnum til viðbótar við fjármálamarkaðinn, bankana og það allt. Þetta er algjört lykilatriði af okkar hálfu og við höfum margoft sagt að það færi betur á því að ríkið sé ekki með mikla fyrirferð á samkeppnismörkuðum.

Það sem er vont núna við umræðuna er að þetta kemur ofan í klúðrið á Íslandsbankasölunni hinni síðari. Öll þjóðin er brennd af því sem þar gekk á. Þar tókst mjög illa til og því er mjög erfitt að ræða þetta af einhverri yfirvegun vegna þess að gamla einkavæðingin á Íslandsbanka hangir þarna yfir. Þetta snertir sömu grundvallaratriði og voru undir í Íslandsbankasölunni.

Ef þetta verður að veruleika þá hljótum við að standa frammi fyrir þeirri spurningu: Af hverju skyldi þetta ekki vera opin spurning með aðra markaði líka? Af hverju skyldi ekki Landsbankinn, eða eftir atvikum Íslandsbanki sem ríkið á enn stóran hlut í, færa sig inn á einhverja aðra markaði með nákvæmlega sömu grundvallaratriði að leiðarljósi og felast í rökstuðningi bankans, að það sé verið að gæta hagsmuna fyrirtækisins á samkeppnismarkaði og auka virði hans fyrir hluthafana? En vandinn er að það er ekkert skýrt að hluthafinn vilja endilega að þetta fari svona.

Ég hef sagt það áður og segi það enn einu sinni hér, það er sú staða uppi sem er svo sérkennileg að fjármálaráðherra úr flokki einkaframtaksins er núna að leita skýringa hjá stofnun sem á að leggja niður hvernig standi á því að tryggingafélag sé ríkisvætt af banka sem mögulega á að einkavæða. Ráðherra hefur verið að gagnrýna það að þessi kaup Landsbankans á TM fari gegn eigendastefnunni. En á sama tíma og hæstv. ráðherra er að gagnrýna það er ráðherra að reyna að knýja fram breytingu á þessari sömu eigendastefnu án þess að það sé rætt á tilhlýðilegum vettvangi. Þetta var allt nefnilega tengt saman í gagnrýni ráðherrans núna á sunnudagskvöldið á þessi tíðindi sem þá höfðu borist. Það er hæstv. ráðherra að gera með því að hengja mögulega sölu á Landsbankanum við lyktir þessara kaupa bankans á TM.

Það gerist síðan daginn eftir að viðskiptaráðherra og forsætisráðherra slá þetta algjörlega út af borðinu. Þá hljótum við að spyrja, því að við erum með eigendastefnu í gildi en við höfum enga hugmynd um það í raun og veru hver vilji eða áform ríkisstjórnarinnar eru í stóru myndinni þegar kemur að fjármálamarkaðnum í heild sinni: Verða þessi kaup að veruleika? Verða þau það ekki? Er ríkið mögulega að baka sér skaðabótaskyldu með því að standa ekki við þann samning sem Landsbankinn gerir? Við stöndum líka frammi fyrir þeirri spurningu: Á að selja Landsbankann eða á ekki að selja Landsbankann? Núna eru stjórnarflokkarnir greinilega ekki alveg sammála um það hvert á að fara í því, en það liggur þó alla vega fyrir að eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka verður seldur. En við verðum að hafa það í huga að bæði síðasta salan á Íslandsbanka og svo ekki sé talað um einkavæðingarnar fyrir hrun, segja okkur býsna skýrt þá sögu að Sjálfstæðisflokknum er ekkert sérstaklega treystandi til þess, hvorki að halda utan um eign ríkisins í fjármálafyrirtæki né að selja eign ríkisins í fjármálafyrirtæki. Það er kannski stóra málið sem við þurfum að hafa í huga.

Við verðum líka að hafa það í huga að ef menn eru þeirrar skoðunar að regluverkið sé eitthvað óskýrt eða að það skorti eitthvað upp á það að samskipti geti verið í lagi eins og málum er fyrir komið í dag, (Forseti hringir.) þá hafa menn haft sjö ár til að breyta því. En menn eru hins vegar með þetta í fanginu og hvernig þetta verður leyst verður forvitnilegt að sjá. En við hljótum a.m.k. að tala mjög skýrt fyrir því að ríkisbanki á ekki að sölsa undir sig tryggingafélag til þess eins að vera orðinn leikandi á enn einum markaðnum.

(Forseti (JSkúl): Um leið og forseti biður hv. þingmann afsökunar á að hafa farið rangt með nafn hans, vill forseti minna alla hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)