154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

847. mál
[17:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna er varðar rafrænt eða stafrænt aðgengi innan stjórnsýslunnar að upplýsingum um afurðaverð og verð á fiski sem fluttur er erlendis. Frumvarpið varðar einnig heimild ráðherra til að skipa í stöðu forstöðumanns Verðlagsstofu.

Frumvarpið er annars vegar lagt fram til að styrkja heimildir Verðlagsstofu til aðgangs að gagnasöfnum Skattsins og Hagstofu Íslands um fiskverð og afurðaverð og til þess að stuðla að styttri málsmeðferðartíma fyrir úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Hins vegar er frumvarpið lagt fram í þeim tilgangi að setja inn skýra heimild fyrir ráðherra til að geta falið forstöðumanni annarrar ríkisstofnunar að gegna einnig forstöðu Verðlagsstofu til ákveðins tíma í senn. Þetta frumvarp var unnið í matvælaráðuneytinu í samráði við stofnanir, hagsmunaaðila og almenning með birtingu áforma og frumvarpsdraga í samráðsgátt.

Frumvarpið mælir fyrir um breytingar á 2. gr., 4. gr., 6. gr., 8. gr. og 11. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og ég mun sérstaklega gera grein fyrir 1. gr. og 2. gr. frumvarpsins er varðar breytingar á 2. gr. og 4. gr. laganna.

Varðandi tillögu um heimildir til skipunar forstöðumanns Verðlagsstofu er lagt til að á eftir 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna komi nýr málsliður sem mælir fyrir um að ráðherra verði heimilt að fela forstöðumanni annarrar ríkisstofnunar einnig forstöðu Verðlagsstofu með skipan til allt að fimm ára í senn. Meginreglan verður áfram sú að skipað er í embætti til fimm ára. Um er að ræða sérákvæði gagnvart hinu almenna ákvæði og ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Þessi tillaga byggir á því að Verðlagsstofa er sjálfstæð stofnun. Hún hefur 3–4 stöðugildi og eitt meginverkefni sem er að fylgjast með fiskverði og afurðaverði sjávarafurða til að tryggja traust vegna kjarasamninga sjómanna og útgerða. Þetta hlutverk hefur verið fært ríkinu með lögum. Í lögunum er nú þegar ákvæði um að ráðherra geti samið við aðrar ríkisstofnanir um að annast rekstur skrifstofu Verðlagsstofu eftir því sem hagkvæmt þykir og hefur áður verið samið við Fiskistofu um að annast tiltekinn skrifstofurekstur fyrir Verðlagsstofu. Það fyrirkomulag hafi nú þegar haft í för með sér margvíslegan ávinning og Verðlagsstofan hefur notið góðs af þeim samlegðaráhrifum. Því er stjórnsýslulegt og fjárhagslegt hagræði af því að sami aðili geti veitt þessum stofnunum forstöðu. Varðandi tillögu um aukið gagnsæi fiskverðs og afurðaverðs er lagt til að á eftir 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna komi nýr málsliður sem mælir fyrir um að jafnframt beri þeim stofnunum sem safna upplýsingum um útflutning sjávarafurða, svo sem Skattinum og Hagstofu Íslands, að veita Verðlagsstofu aðgang að þeim upplýsingum með rafrænum eða stafrænum hætti.

Hlutverk Verðlagsstofu er að fylgjast með fiskverði og uppgjör á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjör á aflahlutum eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Lögin tóku gildi árið 1998 en síðan þá hefur orðið mikil breyting í rafrænni og stafrænni þróun og starfsemi fyrirtækja. Það er mikilvægt að uppfæra lögin og heimildir þeirra til eftirlits í samræmi við tækniþróun og kröfur um skilvirkni Verðlagsstofu ber almennt að afla ítarlegra gagna um fiskverð og skal stofan reglulega birta upplýsingar um fiskverð þannig að þær gagnist útvegsmönnum, sjómönnum og fiskkaupendum sem best. Þá skal Verðlagsstofa afla gagna um afurðaverð og horfur um þróun þess. Verðlagsstofa getur krafist upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá skatta- og tollayfirvöldum. Þá segir að Verðlagsstofa megi nýta upplýsingarnar, m.a. í almennum tilgangi, til undirbúnings ákvarðana og úrskurða í einstökum málum fyrir úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Eftirlit Verðlagsstofu er því annars vegar byggt á samningum um fiskverð sem gerðir eru milli útgerðar og áhafnar og útgerðin ber að skila til Verðlagsstofu og hins vegar á öðrum upplýsingum, einkum frá öðrum stjórnvöldum. Í einstökum málum óskar Verðlagsstofa eftir upplýsingum frá Skattinum og bíður eftir að upplýsingar berist. Í framhaldinu getur Verðlagsstofa greint gögnin og það fer eftir umfangi hversu tímafrek sú greining er. Að lokinni greiningu sendir svo Verðlagsstofa upplýsingar til úrskurðarnefndarinnar. Tíminn sem þetta ferli tekur er óviðunandi, ekki síst í ljósi þess að bæði Verðlagsstofa og Skatturinn vinna með stafræn gagnasöfn sem unnt er að tengja saman og það hlýtur að vera hagur allra málsaðila að málsmeðferð taki sem skemmstan tíma, auk þess sem mikilvægt er að Verðlagsstofa hafi heildarmynd af öllum aðstæðum er varða útflutning á fiski. Til að Verðlagsstofa geti rækt eftirlitshlutverk sitt með markvissari hætti er því nauðsynlegt að skýra betur heimildir Verðlagsstofu til aðgangs að upplýsingum frá öðrum stjórnvöldum. Ég tel þetta sjálfsagt og eðlilegt í ljósi þess að hér er um opinber gagnasöfn að ræða. Þessi breyting getur stuðlað að styttri málsmeðferðartíma fyrir úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og lagt grunn að auknu gagnsæi fiskverðs og afurðaverðs.

Frú forseti. Stuttlega um samráðsferlið: Áform um lagasetningu voru sett í samráðsgátt fyrir jól og drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt í janúar. Umsagnir bárust frá helstu hagsmunaaðilum. Sameiginleg umsögn um áformin barst frá Félagi skipstjórnarmanna, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannasambandi Íslands. Þar var áformunum fagnað og bent á að gagnsæi um verðlagningu væri forsenda trausts milli aðila. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skiluðu einnig umsögn þar sem fram kom að þau teldu ekki þörf á áhættumiðuðu samtímaeftirliti. Að öðru leyti get ég vísað til umfjöllunar um samráðið í 5. kafla greinargerðar frumvarpsins þar sem ágætlega er farið yfir allar þær umsagnir sem bárust og efni þeirra.

Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalla á sérstaka umfjöllun um samræmi þess við stjórnarskrá. Það varðar einkum heimild tiltekinnar opinberrar stofnunar til að geta deilt upplýsingum sem snúa að markmiði með eftirliti þeirra lögum samkvæmt. Frumvarpið mælir ekki fyrir um nýjar upplýsingaskyldur einstaklinga og fyrirtækja. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga að þarna er ekki verið að safna nýjum gögnum heldur einfaldlega að láta gagnasöfn hins opinbera vinna saman. Ekki er talið að frumvarpið hafi áhrif á ríkissjóð eða stjórnsýslu ef það verður að lögum, nema að því leyti að stjórnsýslan getur gengið hraðar fyrir sig og ákveðið hagræði gæti verið að því að fela forstöðumanni annarrar ríkisstofnunar að gegna einnig forstöðu Verðlagsstofu skiptaverðs. Ekki er talið að frumvarpið hafi áhrif á fjárhag sveitarfélaga eða sérstök áhrif á réttindi og skyldur er varða persónuvernd né heldur á jafnrétti kynjanna.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra hér. Ég hef rakið hér meginefni frumvarpsins og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því. En að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umræðu og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.