131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:01]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég tók fram sé ég enga ástæðu til annars en að styðja í sjálfu sér þingsályktunartillöguna. Ég benti hins vegar á að hún væri ákaflega lin að því leyti að það ætti að skipa þarna nefnd Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og bankanna til að komast að niðurstöðu sem við vitum fyrir fram hver er. Þeir eru á móti vegna þess að þeir munu aldrei þora þessu.

Ég brýndi fyrir öllum í ræðu minni að verkefni Alþingis væri að láta reyna á hvort meiri hluti væri fyrir því að afnema raunhæft þessa verðtryggingu í áföngum þannig að hún væri ekki stærri hluti hér en gengur og gerist í öðrum löndum og þá fyrst og fremst með því að ríkið hefði kannski einkaleyfi á henni. Ég tel ákaflega brýnt og nauðsynlegt að menn hugsi þá hugsun og geri sér grein fyrir því að tímar hennar gætu verið taldir. Ég held að það sé ákaflega brýnt, herra forseti, að bæði fjármagnseigendur og þeir sem meðhöndla fjármagn, þ.e. verðbréfafyrirtækin og bankarnir, átti sig á því að um það er að ræða að menn verða allir að hafa sömu hagsmuni af því að standa vörð um gjaldmiðilinn íslenska. Allir hafa sömu hagsmuni og geta velt fyrir sér í hvaða farveg við munum þá fara. Menn munu segja: Það hlaupa allir yfir í erlendan gjaldmiðil, lánin verða þá þannig. Það getur vel verið að menn geri það um tíma en ég er sannfærður um að heildarhagsmunir efnahagslífsins verði hinir, að allir standi vörð um hina íslensku krónu. Þannig getur hún vonandi orðið nothæf mynt, mynt sem við getum verið stolt af og treyst öll sem eitt.