132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fiskrækt.

613. mál
[22:13]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 898 sem er 613. mál. Um er að ræða frumvarp til laga um fiskrækt. Frumvarp þetta er eitt fjögurra fylgifrumvarpa með frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði.

Ákvæði um fiskrækt eru nú að meginstefnu til á tveimur stöðum í gildandi lögum. Í fyrsta lagi eru ítarleg ákvæði um fiskræktaráætlun í 23. gr. lax- og silungsveiðilaga og í öðru lagi eru ákvæði um Fiskræktarsjóð í XIV. kafla laganna. Í frumvarpinu er fyrrgreindum reglum komið fyrir í II. og III. kafla, en reglum um Fiskræktarsjóð í VI. kafla frumvarpsins.

Í frumvarpinu er í I. kafla fjallað um markmið og gildissvið, í II. kafla er grein gerð fyrir fiskræktaráætlun, í III. kafla eru almenn ákvæði um fiskrækt. Þá eru í IV. kafla ákvæði um hafbeit, í V. kafla ákvæði um gildistöku, nafnabreytingu eldri lax- og silungsveiðilaga sem og ákvæði til bráðabirgða.

Hæstv. forseti. Það hefur verið ljóst hér, bæði á þessu þingi og því síðasta, að skiptar skoðanir eru um það hvernig staðið skuli að greiðslu gjalds í Fiskræktarsjóð. Í frumvarpi þessu birtist sú málamiðlun að gert er ráð fyrir því að ákvæði eldri laga um lax- og silungsveiði standi óhögguð að sinni. Ég get auðvitað sagt hér, hæstv. forseti, að ég er tiltölulega sáttur við þá niðurstöðu. Hún mun skila Fiskræktarsjóði á næstu árum verulega auknum tekjum til rannsókna. Ég hef farið yfir það hér í dag að ég álít mjög sanngjarnt að virkjanir, orkuöflun, breytingar á árfarvegum, raskanir í náttúrunni — að þeir sem það fara með í þjóðfélaginu skili gjaldi sem nemur þessum þremur prómillum inn í Fiskræktarsjóð. Mér finnst sanngjarnt að það gjald falli náttúrunni til til vísindalegra starfa og til þess að styrkja þá auðlind sem lax- og silungsveiðin er.

Nú er gert ráð fyrir því að forsætisráðuneytið stýri starfi fulltrúa landbúnaðarráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins þar sem fjallað skal um það hvernig gjaldtökunni verði háttað í framtíðinni. Þar til slíku starfi er lokið verða ákvæði núverandi lax- og silungsveiðilaga um greiðslur til Fiskræktarsjóðs óbreytt. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar með frumvarpinu og athugasemda með því.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.