133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:48]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var Alþýðuflokkur hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem innleiddi með forustuhlutverki matarskattinn á sínum tíma, líklega 1988, og barðist sérstaklega fyrir honum í tekjuþurrð ríkisins. Nú er staðan önnur og hægt að gefa þessa peninga eftir því að ríkissjóður er skuldlítill, nánast skuldlaus, og hefur aðra möguleika.

Ég vil hér segja: Hvaða kvíði er hjá bændum? 90% bænda studdu þennan samning í almennri atkvæðagreiðslu. Það sýnir að þeim líkar þessi samningur, þeir taka honum vel og þeir trúa á hann sem tækifæri fyrir sig til að styrkja búskap sinn o.s.frv. Jú, það fara 3,2 milljarðar að meðaltali á ári í sex ár í þennan samning sem kemur bændum til hagsbóta, styrkir búin og tryggir þau til framtíðar í endurskipulagningu, þýðir lægra verð á disk neytenda á þessu frábæra lambakjöti og bætir hag heimilanna, ekki hærri upphæð en feðraorlofið sem hér fer árlega til ungra feðra sem geta þá verið með börnum sínum. Þeir fá þessa upphæð úr ríkissjóði, 3,3 milljarða. Allir eru sammála um þá félagslegu aðgerð.

Ég verð að segja fyrir mig að bændur bera auðvitað ábyrgð á sláturhúsum sínum og sölustarfi. Kerfið fær mjög lítið af þessum peningum. Bændurnir fá þessar beingreiðslur nánast allar beint til sín og það er alveg ljóst að af 300 lömbum koma úr sláturhúsi eins og hv. þingmaður veit 1,4 millj., og 1,2 millj. úr beingreiðslunum, 2,6 millj. samtals. Þetta eru svona 200 ær, sem er ekki fullt starf. Þessi bóndi vinnur með, sækir tekjur í hlunnindi eða annað. Það verður að horfa á þetta í heild sinni án þess að reyna að rífa það niður og kenna öðrum um það (Forseti hringir.) að bændur bera, hæstv. forseti, ábyrgð á sölumálum sínum og vilja gera það sjálfir. Ríkið er ekki með puttana í því.