141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fékk ekki almennilegt svar við því af hverju sama fólk flutti breytingartillögu í tvígang við eigið frumvarp, en ég benti á í umsögninni frá 21. febrúar 2012 að víða, í 80 stöðum í frumvarpi stjórnlagaráðs, stendur að ákvæðið taki ekki gildi fyrr en Alþingi er búið að setja lög um það. Ég ætla að nefna eitt dæmi, sem aftur er flutt.

Réttur barna. Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Það gerist ekki neitt nema Alþingi geri eitthvað með lögum. Af hverju stendur ekki þarna: Öll börn eiga rétt á vernd og umönnun. Af hverju stendur það ekki einfaldlega? (Gripið fram í.) Af hverju stendur ekki einfaldlega í stjórnarskrá landsins sem er undirstaða lagasetningar … (Gripið fram í.) Frú forseti, get ég fengið frið til að halda ræðu mína? Af hverju stendur ekki einfaldlega: Öll börn eiga rétt á vernd og umönnun?