141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það auðvitað svo að Sjálfstæðisflokkurinn er áhrifamikill flokkur en hann stjórnar ekki málum hér í þinginu (Gripið fram í.) eins og hv. þingmanni er ljóst. Það sem alltaf ræður úrslitum í þinginu er það fyrir hverju og fyrir hvaða niðurstöðu er meiri hluti, það er alltaf þannig. (Gripið fram í.) Það hlýtur að vera í þessu máli eins og öðrum.

Hvað gerist hins vegar á næsta kjörtímabili, að kosningum loknum, þegar þingið verður hugsanlega allt öðruvísi samsett en það er í dag, veit auðvitað enginn, en samstöðukrafan sem felst í núgildandi ákvæðum stjórnarskrár felur það einmitt í sér að það þarf að vera það víðtæk samstaða að meiri hluti fyrir stjórnarskrárbreytingum haldist fram yfir kosningar. Það er kannski hið raunhæfa mat eða raunsæja mat að það sé alls óvíst að svo verði.

Ég verð að segja fyrir mig að tíminn til að setjast niður og ræða einstakar breytingar er orðinn mjög knappur, óhjákvæmilega. Það eru rétt rúmar sjö vikur til kosninga svo ekki sé horft á aðrar dagsetningar. (Forseti hringir.) Það má því segja að ef menn hefðu horfið frá (Forseti hringir.) heildarendurskoðun fyrr og sest niður til að ræða afmarkaðar breytingar (Forseti hringir.) fyrr hefðu verið meiri möguleikar á því að slík niðurstaða næðist.