144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[18:01]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að taka undir það sem hér hefur verið sagt og þakka fyrir að frumvarpið er komið fram. Auðvitað get ég ekki annað en minnst á það í leiðinni að við Vinstri græn ræddum þetta mál mikið við fjárlagagerðina bæði núna og síðast og lögðum á það áherslu, enda höfðum við talið það vera eitt af forgangsmálum til jöfnunar búsetu. Við höfum fjallað töluvert um byggðamál á þinginu og jafnrétti til búsetu, ekki bara í vetur heldur mörgum sinnum áður. Jöfnun á húshitunarkostnaði á köldum svæðum er eitt af því sem skiptir þar gríðarlega miklu máli, og við sem það höfum prófað eða búið við þekkjum að það er ekki sá lúxus í boði að skrúfa frá sturtunni og láta heita vatnið renna mjög lengi eða að allir geti lokið við að fara í sturtu á sama klukkutímanum. Þess vegna er þetta eitt af því sem sem skiptir miklu máli fyrir okkur og við getum verið nokkuð sammála um.

Ég verð reyndar líka að taka undir það að ég er mjög ánægð með að unnið er samkvæmt þeim tillögum sem starfshópurinn skilaði í desemberskýrslu sinni árið 2011 þar sem var nú samt sem áður gert ráð fyrir að lagt yrði á gjald. Hér var ákveðið að gera það ekki og má svo sem spyrja: Af hverju ekki? Við veltum því upp fyrr í umræðu um það mál sem vísað var til áðan hvers vegna til dæmis stóriðjan væri ekki ein af þeim sem tækju þátt í rafmagnskostnaði í dreifbýli o.s.frv., af hverju ekki væri ákveðið að leggja til einhverja slíka gjaldtöku. Ég held að ég hafi ekki misskilið það sem fram kom í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar þar sem hann átti orðastað við hæstv. ráðherra í febrúar síðastliðnum og vitnaði þar í flokksþing Framsóknarflokksins og sagði, með leyfi forseta:

„Lagt verði á sérstakt jöfnunargjald sem verði notað til að greiða niður húsnæðiskostnað og flutningskostnað á raforku með það að leiðarljósi að jafna kostnað við húshitun á landsvísu.“

Það rataði svo inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sagði hv. þingmaður. Mér finnst það hljóma svolítið sérstakt miðað við að hér er svo ákveðið að fara aðra leið. Ég spyr því: Hvers vegna?

En það er auðvitað mikilvægt að þetta rataði inn í samstarfsyfirlýsinguna, segir hér, ég vitna þar í hv. þingmann. Í kringum 10% landsmanna búa við þessa tegund af húshitun sem er auðvitað mjög dýr og tekur mikið af ráðstöfunartekjunum. Þess vegna er það vel að gjaldið lækki. Hér er sagan rakin aðeins frá því 2007 og sagt hversu mörg heimili hafa verið styrkt til bættrar einangrunar og varmadæluuppsetningar, þau eru 300. Lögin um breytinguna á niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar eru rakin og sagt að stofnstyrkjaframlagið hafi verið lengt í tólf ár þannig að allt skiptir það máli og er í rauninni mjög jákvætt.

Ég velti fyrir mér þessu með fjármögnunina af því að við í fjárlaganefnd erum að fjalla um ríkisfjármálaáætlun sem gilda á næstu fjögur ár. Frumvarpið er búið að fara í gegnum stjórnarflokkana og ríkisstjórn en ekki er gert fyrir slíkri útgjaldaaukningu í fjárlögum eða í fjögurra ára ríkisfjármálaáætlun. Hvers vegna er það ekki gert þegar þetta liggur fyrir á undan hinu? Að sjálfsögðu vonast ég til þess að þetta nái fram að ganga og styð hæstv. ráðherra eindregið í því.

Ég held að það sem fjármálaráðuneytið gagnrýnir hér, þessi skýra breyting sem kveður á um skyldu ríkisins til að niðurgreiða húshitun, sé að ekki sé settur fyrirvari um svigrúmið. Fjármálaráðuneytið gagnrýnir að þetta eigi að fara í gegn, þ.e. að niðurgreiðslukerfið verði sjálfvirkt. Fjármálaráðuneytið vill hins vegar að tekin sé um það ákvörðun frá ári til árs við gerð fjárlaga og þá með einhverjum öðrum hætti en hér er lagt til, og að fara þurfi fram einhver sérstök umræða um það. Ég styð það hins vegar að þetta verði varanlegt og að þörfin hverju sinni komi fram og þetta renni þar svo inn. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þetta sé svona en ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég er bara ánægð með að frumvarpið er komið fram og ég styð ráðherrann í að það nái fram að ganga. Ég velti hins vegar fyrir mér varðandi samstarfssamninginn eða yfirlýsinguna þar sem þetta kemur sérstaklega fram og eins að leggja eigi sérstakt jöfnunargjald á sem síðan er ákveðið að gera ekki hér.