144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[18:55]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er sannarlega fyrsta skrefið í átt til einföldunar á þessum lögum. Þær kröfur sem gerðar eru, og nefnt er að skýrðar verði í reglugerð, snúa fyrst og síðast að öryggisþættinum. Ekki er með þessu verið að gera kröfur um það hvernig íbúðirnar eiga að líta út eða hvort þær þurfi að uppfylla ákveðna staðla. Fólki er frjálst að velja sér gistingu eftir smekk. Það sem við erum að tryggja og hafa áhyggjur af eða setja í þessa löggjöf eru skilyrði um öryggismál — fjöldi reykskynjara, brunaútgangar og þess háttar skilyrði — en eftirláta fólki að velja sér sína tegund gistingar sjálft.