144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[19:03]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna orðum hv. þingmanns. Eitt af markmiðunum er að gera greinarmun á atvinnustarfsemi og hinni svokölluðu heimagistingu, sem er ekki atvinnustarfsemi heldur er gert að skilyrði að það séu einstaklingar en ekki lögaðilar sem fara í hana.

Varðandi þá sem leigja út, lögaðilar eða þeir sem leigja út íbúðir sínar að jafnaði, hvort sem það er í skammtíma- eða langtímaleigu, íbúðin er samfellt í leigu til ákveðinna aðila, fer um það samkvæmt húsaleigulögum og lögum um fjöleignarhús og annað. Hópurinn hefur ekki í vinnu við þetta frumvarp fjallað sérstaklega um þetta en í störfum hópsins er sannarlega verið að fjalla um það og líka í þeirri stefnumótunarvinnu sem við erum að fara í gegnum, ekki síst hvað varðar (Forseti hringir.) þolmörk, þolmarkarannsóknir í ferðaþjónustu.