145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Margt er skrafað hér á þingi sem og í blöðum og fréttaskýringarþáttum og sýnist sitt hverjum. Það er gott að fólk velti upp nýjum hugmyndum og vilji skoða þætti sem það telur einhverra hluta vegna að eigi að fara öðruvísi en þegar hefur verið ákveðið.

Menn hafa farið mikinn undanfarið í umræðu um staðsetningu Landspítalans við Hringbraut og rætt hugmyndir um að fara vítt og breitt. Það er í sjálfu sér allt í góðu með þá hugmynd að ræða uppbyggingu spítala, en ég held að uppbygging spítala eins og ákveðin hefur verið hér á þingi hljóti að vera bindandi þar til annað kemur í ljós.

Menn geta talað um annan spítala í náinni framtíð, hvar þeir vilja hafa hann og hvert þeir vilja beina þeirri orðræðu. Hins vegar er það svo að framkvæmdir við Landspítalann við Hringbraut eru í samræmi við lög frá Alþingi nr. 64/2010. Þau uppbyggingaráform eru líka í samræmi við ályktun Alþingis frá 16. maí 2014, um endurnýjun og uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Og þau eru í samræmi við samþykkt fjárlög yfirstandandi árs og fyrri ára.

En það er ekkert að því að menn ræði breyttar hugmyndir og hafi aðrar hugmyndir. En á meðan bundið er í lög og ályktun Alþingis hvernig standa skuli að málum þá breytir því enginn nema með því að koma fram með nýtt mál sem fellir það mál sem er fyrir hendi, bundið í lög nr. 64/2010, (Forseti hringir.) og ályktun Alþingis frá 16. maí 2014.


Tengd mál