145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að mæla fyrir nefndaráliti með breytingartillögu. Nefndin fjallaði um málið eftir 2. umr. Við þá umræðu komu fram sjónarmið um að setja þyrfti fastan tímaramma um starfsemi félags sem stofnað verður til að annast umsýslu, fullnustu og sölu eigna sem eru hluti af stöðugleikaframlagi slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. Við umfjöllun um málið í nefndinni kom meðal annars fram að ráðuneytið áætlar að félagið nái að fullnusta 80% verðmætanna innan 18 mánaða. Einnig kom fram að í drögum að samningi ráðuneytisins við áformað félag sé miðað við að samningurinn gildi til 31. desember 2018. Erfitt er að áætla nákvæmlega hvenær verkefnum félagsins verður að fullu lokið en gera má ráð fyrir að þegar verðmætin sem eftir standa verða það lítil eða þess eðlis að þau réttlæti ekki lengur áframhaldandi starfsemi sérstaks félags verði það lagt niður. Jafnframt má benda á að félagið þarf nægan tíma til að koma eignum í verð í samræmi við markmið frumvarpsins.

Ráðherra mun ársfjórðungslega gera efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd grein fyrir framvindu við úrvinnslu eignanna og áætluðum lokum verkefnisins. Meiri hlutinn leggur því til viðbótarbreytingu við frumvarpið sem felur í sér að störfum félagsins verði lokið og félaginu slitið fyrir 31. desember 2018.

Brynjar Níelsson, Guðmundur Steingrímsson og Líneik Anna Sævarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir álitið og breytingartillöguna skrifa Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Willum Þór Þórsson, Katrín Jakobsdóttir, Sigríður Á. Andersen og Vilhjálmur Bjarnason.