149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

þriðji orkupakkinn.

[15:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er kannski ágætt að benda á að mjög margar blaðsíður eru undir fyrir þá sem vilja kynna sér þessi mál. Það liggja fyrir ítarleg álit. Það sem ég spurði hæstv. ráðherra um var álit á þeirri leið, hinni leiðinni, sem nú er á borðinu, þeirri sem sýnist hafa orðið fyrir valinu af hálfu hæstv. ráðherra.

Það er, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, tekið fram, þegar fjallað er um þessa leið, að hún sé ekki gallalaus. Höfundar álitsgerðarinnar velja að ljúka álitsgerðinni, sem spannar meira en 40 síður, með því að endurtaka þetta. Það er það síðasta sem lesendur þessarar álitsgerðar sjá, þessi orð: Sú leið er þó ekki gallalaus.

Þess vegna, herra forseti, spurði ég hæstv. ráðherra um það hvar þær væru lögfræðiálitsgerðirnar þar sem þessi leið er krufin og þeir gallar sem þeir ágætu höfundar nefna í tvígang í sinni álitsgerð.