151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

störf þingsins.

[13:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla líka að fjalla um bólusetningar og aðgerðir vegna Covid en með þó nokkuð öðrum hætti. Okkur berast á hverjum degi jákvæðar fréttir af gangi baráttunnar gegn Covid hér á landi. Við heyrum af fjöldabólusetningum í hverri viku sem færa stöðugt fleiri viðkvæma hópa í traust skjól og óðum styttist í að við náum því marki sem talið hefur verið duga til að öðlast hjarðónæmi. Stór viðskiptalönd okkar eru sömuleiðis langt á veg komin og þess er þegar farið að sjá merki með komu bólusettra ferðamanna sem munu hafa mjög jákvæð áhrif á efnahagslífið. En innan um þessar góðu fréttir fáum við líka hörmungarsögur af ástandinu víða annars staðar í heiminum. Vanmáttug heilbrigðiskerfi í mörgum fátækum ríkjum eru að sligast. Skortur á einföldum búnaði og jafnvel bara súrefni fyrir öndunarvélar veldur ómældum þjáningum og dauða, svo sem víða í Asíu. Í meira en ár hefur aðaláhersla Vesturlanda á aðgerðir gegn faraldrinum gengið út á að tryggja bóluefni og veirupróf, fyrst og fremst fyrir sjálf sig. Nú horfumst við í augu við stórkostlegan harmleik í löndum sem gætu þurft að kljást við faraldurinn langt inn á þarnæsta ár á meðan við erum farin að sjá til lands. Það er mikilvægt að við sem auðugt samfélag munum eftir þessu fólki. Við hljótum að leita leiða til að styrkja með enn kröftugri hætti við bakið á baráttunni gegn Covid um heim allan. Það hefur komið fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra að Ísland hefur þegar lagt 500 milljónir í sameiginlega alþjóðlega sjóði vegna þessa og það er vel. Eins hefur komið fram að utanríkisráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið vinni að því að skoða með hvaða hætti sé best að styðja við indversk stjórnvöld í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn.

Herra forseti. Faraldrinum lýkur ekki fyrr en honum lýkur á heimsvísu. Við eigum að gleðjast yfir góðum árangri okkar hér innan lands en munum eftir því að heimurinn er stór og við þurfum að horfa til hans alls.