151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Vandi hjúkrunarheimilanna í landinu hefur verið í umræðunni að undanförnu og við erum komin á einhvers konar endastöð í stefnulausum málaflokki. Í lok mars lögðum við nokkur í þingflokki Samfylkingarinnar fram þingsályktunartillögu um nýja velferðarstefnu fyrir aldraða þar sem snúið er baki við úreltum viðhorfum. Þarna þarf að koma til frumkvæði stjórnvalda. Með tillögunni er höfuðáhersla lögð á búsetuúrræði sem auðveldi eldra fólki umskipti í húsnæði við hæfi með sérstakri ívilnun, þess vegna stundum fjárhagslegri ívilnun, og virkum, þekktum og raunhæfum leiðum. Sjálfstæð búseta á eigin heimili verði höfuðmarkmiðið með stuðningi og fjölbreyttum valkostum. Þar verði heilbrigðis- og velferðartækni virkjuð með margvíslegum leiðum sem enn eru ónýttar, og þróunarverkefni sett á laggirnar sem laði sérstaklega ungt fólk til starfa að áhugaverðum verkefnum. Samhliða verði fagfólk þjálfað samkvæmt áætlunum stjórnvalda um einstaklingsbundna þjónustu á eigin heimili. Fjárhagsleg umgjörð málaflokksins verði endurhugsuð, þar með talin fjármögnun stofnana og greiðsluþátttaka einstaklinga. Leiðarljósið verði fjárhagslegt sjálfstæði og sjálfræði. Hluti af verkefninu verði þróun á sérstöku reiknilíkani sem gerir sveitarfélögum kleift á sínum forsendum að veita viðeigandi markvissa og breytilega þjónustu eftir raunverulegri þörf en ekki á forsendum ríkisvaldsins í ferköntuðu kerfi. Með því að undirstrika viðhorfs- og stefnubreytingu heyri lög um málefni aldraðra sögunni til og verði felld úr gildi.

Herra forseti. Um öll þessi atriði sem við í Samfylkingunni gerum að tillögu okkar, sem er hófstillt en þó róttæk, þarf að ríkja sátt og í rauninni þjóðarsátt.