151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:14]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég kannast ekki við þessar tilteknu tölur eða könnun sem hv. þingmaður vísar í en það skiptir svo sem ekki öllu. Ef ég skil hv. þingmann rétt er hún að velta því upp hvort það að við settum einhverjar skyldur á herðar innflytjendum um að læra íslensku myndi auka gæði kennslunnar. Ég myndi nú frekar vilja snúa þessu við og segja: Ef ég væri algerlega sannfærð um að hér væri tryggur aðgangur að góðri íslenskukennslu, og með tryggur meina ég að búið væri svo um hnútana að innflytjendur hefðu bæði tækifæri og efni á að nýta sér þá kennslu, þá værum við kannski komin á þann stað að við gætum farið að tala um hvort eðlilegt væri að setja einhver mörk, einhverjar skyldur á herðar þessum sömu innflytjendum að kynna sér íslenskuna og vera talfær í henni.

Ég þekki að þetta er víða erlendis sett sem skilyrði, t.d. fyrir fjárhagslegri aðstoð þegar innflytjendur eru að koma undir sig fótunum. En það er algjört grundvallaratriði áður en farið er að ræða þetta yfir höfuð að tryggt sé að kennslan sé til staðar. Og þá árétta ég að það er ekki bara spurningin um að henda upp námskeiðunum heldur þarf að vera ljóst að búið sé svo um hnútana að fólk hafi færi á að kynna sér þessi mál. Það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli, ekki síst ef við tökum fjölskyldufólk sem dæmi þar sem við þekkjum það að foreldrar lokast inni af því að þeir kynna sér þetta ekki og börnin eru túlkar. Það eru þekkt dæmi alls staðar og það skiptir miklu máli fyrir okkur að hafa það þannig að aðlögun að íslensku samfélagi (Forseti hringir.) gangi sem best fyrir sig. En svona heilt yfir og án ábyrgðar myndi ég snúa þessu upp á að það þarf fyrst og fremst að tryggja að þetta sé til staðar áður en við förum að skoða nánari útfærslur.