151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er alltaf mjög áhugavert að hlusta á hann og það er margt athyglisvert sem kemur frá honum. Það er líka sérstakt hvernig hann fléttar trúmálum inn í þetta ákveðna frumvarp. Ég ætla ekki að fara í þá umræðu hér en ég veit að hv. þingmaður hefur mjög gaman af að ræða trúmál hér úr þessum ræðustól þó að hann kvarti samt yfir því að trúmál séu rædd úr þessum ræðustól. (Gripið fram í.) Ég hef a.m.k. heyrt hv. þingmann kvarta yfir því að hér sé verið að ræða trúmál en svo að ræðir hann þau oft sjálfur. En það er önnur saga.

Það sem ég vildi koma inn á við hv. þingmann, ég vil halda mig við þetta frumvarp, er: Ég hef rætt það svolítið mikið í minni ræðu að ég hefði viljað nýta þá fjármuni sem fara í hælisleitendamálin með öðrum hætti. Ég hef einnig bent á það hér og oftar en einu sinni að ég tel og ég veit að þetta kerfi er misnotað og það þarf að koma í veg fyrir þá misnotkun. Ég held að hv. þingmaður sé alveg sammála mér í því að það á náttúrlega ekki að misnota þetta kerfi. Það á náttúrlega að koma í veg fyrir að fólk komi hingað á fölskum forsendum. Ég held við hljótum að vera sammála um það. En mig langar að heyra það frá hv. þingmanni hvort hann hafi hugleitt með hvaða hætti hægt er að gera þetta kerfi skilvirkara, þ.e. að draga úr þessari misnotkun þannig að við getum nýtt fjármunina betur svo að þeir sem koma hingað þurfi þá ekki að bíða hér mánuðum saman. Við þekkjum dæmi þess að verið er að vísa fólki úr landi eftir (Forseti hringir.) jafnvel tvö ár í landinu, fjölskyldufólki, og það er náttúrlega mjög slæmt. Mig langar að heyra hugmyndir hv. þingmanns hvað þetta varðar.