151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:10]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Hv. þm. Brynjar Níelsson sagði eitthvað á þá leið að það sem hér væri gert væri að gera ekki neitt og vona hið besta. En, herra forseti, það er stefna. Í því felst stefna. Sú stefna felst í því að endurtaka mistök annarra, að fylgja stefnu sem nú er lýst af danska forsætisráðherranum og ýmsum öðrum þjóðarleiðtogum sem mistökum. Það gerum við, að fylgja þessari stefnu, að endurtaka þessi mistök, hafandi fyrir augunum viðleitni nágrannaþjóða okkar til þess að reyna að bæta fyrir þessi mistök eftir að mikill skaði er skeður, samfélagslegur skaði, leyfi ég mér að segja.

Í stefnuyfirlýsingu danskra jafnaðarmanna í útlendingamálum, sem ég hef stundum vitnað til og fleiri, segir, í kafla sem ber yfirskriftina Hin nýja frelsisbarátta, að danskir jafnaðarmenn vilji að algjört bann verði lagt við erlendum fjárstuðningi við trúarsamfélög í Danmörku frá ríkjum sem sjálf hvorki virða né ástunda trúfrelsi. Þetta er á bls. 14. Menn þekkja það að ríki eins og Sádi-Arabía og Katar og önnur slík hafa lagt fram mikið fé til þess að byggja moskur í Danmörku. En málið snýr líka svolítið beint að okkur vegna þess að Ríkisútvarpið greindi frá því 22. nóvember 2015 að Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var forseti Íslands, hafi sagt það hafa komið sér í opna skjöldu þegar sendiherra Sádi-Arabíu greindi honum frá fyrirætlunum stjórnvalda í Sádi-Arabíu um að styrkja byggingu mosku hér á landi. Í fréttinni er haft eftir Ólafi Ragnari, með leyfi forseta:

„Við erum með lög í landinu sem banna erlendum aðilum að leggja fé í stjórnmálastarf á Íslandi. Og það hefur verið breið pólitísk samstaða um slíkt bann. Og með líkum hætti finnst mér óeðlilegt að ríki eins og Sádi-Arabía skuli hafa fullt frelsi til þess að blanda sér með fjármunum og íhlutunum af hálfu sendiráðsins í trúariðkun á Íslandi.“

Víkur þá sögunni aftur til Danmerkur. Hinn 15. mars á þessu ári tóku gildi í Danmörku lög um varnir gegn erlendum öfgaöflum sem Danir telja grafa undan dönsku samfélagi. Danskir þingmenn úr flestum stjórnmálaflokkum greiddu frumvarpi dönsku jafnaðarmannastjórnarinnar atkvæði sitt. Lögin leggja bann við því að taka við fé eða annars konar stuðningi frá erlendum aðilum sem taldir eru varasamir. Markmið hinna dönsku laga er að leggja bann við að einstaklingar eða lögaðilar, þar á meðal stjórnvöld erlendra ríkja eða stofnanir og fyrirtæki á þeirra vegum, geti unnið gegn eða grafið undan lýðræði og mannréttindum með því að veita fjárframlög til innlendra aðila. Lögin kveða á um að danska útlendinga- og aðlögunarráðuneytinu sé falið að gera lista yfir einstaklinga eða lögaðila, þar á meðal ríkisstjórnir, ríkisstofnanir og fyrirtæki, sem taldir eru vinna gegn dönskum grundvallargildum um lýðræði og mannréttindi. Aðilum sem taka við framlögum sem fara fram úr 10.000 dönskum krónum, ætli það séu ekki um 200.000 íslenskar krónur, á 12 mánaða tímabili skal refsað með sekt. Slíkur aðili skal endurgreiða framlagið innan 14 daga frá þeim tíma sem honum var ljóst eða mátti vera ljóst að framlagið hefði verið innt af hendi.

Herra forseti. Breið samstaða var á danska þinginu um frumvarpið. Þingmenn sjö flokka greiddu því atkvæði, alls 79 talsins. Á móti voru níu og sjö sátu hjá.

Ég ætla að leyfa mér að segja, herra forseti, að ég tel að við Íslendingar, ekki síst í ljósi reynslu Dana og fleiri þjóða, ekki síst vegna þess sem ég fjallaði um áðan, þeirra upplýsinga sem sendiherra Sádi-Arabíu veitti forseta Íslands, sem var sýnilega brugðið, þurfum að læra af þessari reynslu. Við skulum sömuleiðis átta okkur á því að margar aðrar Evrópuþjóðir hafa leitast við að bregðast við með sambærilegum hætti og, herra forseti, það þurfum við líka að gera.