151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, þ.e. að hún fer yfirleitt fram. Ég vil líka þakka fyrir að hún hefur komist á dagskrá með þessum hætti. Þessi umræða í dag er búin að vera málefnaleg að mestu leyti og hófstillt fyrir utan eitt geðvonskukast framsögumanns meiri hluta, hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, Framsóknarflokki, sem byrjaði strax að tala um kynþáttahyggju og fleira eins og þessi umræða hefur verið til þessa. En, herra forseti, það sem við þurfum, þjóðin, og það sem við viljum, er að geta rætt þessi mál fordómalaust án upphrópana og af skynsemi og yfirvegun.

Í sjálfu sér má segja að þetta frumvarp sé eins og ísjaki, það er bara einn níundi sem er upp úr, restin er undirliggjandi vegna þess að við vitum ekki hvað samþykkt þess hefur í för með sér. Við Miðflokksfólkið reynum að benda á hvað gæti fylgt því að samþykkja frumvarpið og við vörum við því að hliðsetja hælisleitendur eða fólk sem er í leit að alþjóðlegri vernd og kvótaflóttamenn, veita þeim sömu réttindi. Það mun auka mjög þrýstinginn á kerfið sem við höfum smíðað utan um þessi mál. Það kerfi er ekkert rosalega burðugt, herra forseti. Það er það ekki, því miður. Þess vegna er í sjálfu sér alvarlegt að mál eins og þetta skuli koma fram þar sem menn eru albúnir í að setja fram mál af þessari stærðargráðu án þess að gera grein fyrir og gera sér grein fyrir kostnaðinum sem af hlýst.

Í sjálfu sér hafði ég ekkert sérstaka þörf fyrir að taka þátt í þessari umræðu í dag. En ég verð að segja að það voru kannski ræður tveggja hv. þingmanna sem urðu til þess að ég mætti hér í ræðustól. Þar skal fyrstan telja hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson sem kveikti aðeins í mér, ekki í fyrsta sinn. Þessi ágæti hv. þingmaður flutti hér innblásna ræðu þar sem hann talaði sig upp í trúarlegan hita, fannst mér. Það var eitt sem mér fannst mjög athyglisvert í ræðu hans af mörgu öðru. Honum varð mjög tíðrætt um þá flóttamenn sem hingað rata sem játa ekki kristna trú. Það er enginn hér inni sem ég veit til sem gerir einhvern greinarmun á því hvaða trúarbrögð þessi og hinn sem hingað ratar í neyð aðhyllist. En það vill nú þannig til, herra forseti, og þess vegna var út af fyrir sig gagnlegt að þessi hv. þingmaður skyldi orða þetta, að við Íslendingar tökum á móti mjög fáum kristnum flóttamönnum. Flestir vita að kristnir eru víða ofsóttir og m.a. á þeim svæðum sem töluverður hluti flóttamanna eða fólk sem leitar að alþjóðlegri vernd sem hingað leitar kemur frá. Þess vegna er það í sjálfu sér ekki góðu heilli að við skulum ekki taka á móti fleiri kristnum flóttamönnum.

Þar sem er hins vegar uppistandandi í þessari umræðu, herra forseti, er það að hér inni og fyrir utan dyrnar eru svokölluð frjálslynd öfl sem virðast líta á móttöku flóttamanna eins og Eurovision, einhverja keppni í því hverjir eru bestir, í þessu tilfelli best innrættir. Þetta er ekki svona einfalt, herra forseti. Þetta snýst ekki um það. Málið snýst einfaldlega um það að við tökum á móti þeim hópum flóttamanna sem við ráðum við með góðu móti vegna þess að móttöku flóttamanna eða hælisleitenda lýkur ekki suður í Leifsstöð þegar menn mæta þar. Þar hefst móttakan.

Herra forseti. Fyrir um 20 árum síðan þá las ég BA-ritgerð um málefni hælisleitenda og innflytjenda og sérstaklega um börn þeirra. Í þeirri ritgerð var varað við því að ef þau börn fengju ekki kennslu í móðurmáli sínu og síðan í íslensku yrði hætta á því að þeim myndi farnast illa í skólakerfinu. Í stuttu máli sagt, herra forseti, hefur þetta allt ræst. Það hefur allt komið á daginn sem þarna var varað við. Mönnum hefur orðið tíðrætt um Norðurlöndin í þessari umræðu og það er ekki að ófyrirsynju, herra forseti, vegna þess að við Miðflokksfólkið höfum bent á að ef við tökum tillit til fólksfjölda þá tökum við Íslendingar við margfalt fleiri hælisleitendum, þ.e. fólki í leit að alþjóðlegri vernd, en hinar Norðurlandaþjóðirnar, eins og Noregur og Danmörk. Við tökum við töluvert fleirum en þessar tvær þjóðir og fleirum en Svíar og töluvert fleirum en Finnar. Af hverju segi ég þetta? Vegna þess að þrátt fyrir að okkur sé að sjálfsögðu skylt að taka við fólki líkt og aðrir gera þá er það svo skrýtið að í þessu máli núna erum við akkúrat að taka þveröfuga stefnu miðað við hin Norðurlöndin. Danmörk er t.d. núna að reka af höndum sér fjölda fólks og það kæmi mér mjög á óvart, herra forseti, ef töluvert af því fólki myndi ekki rata hingað nú.

Í þessum bransa, eins og alls staðar annars staðar, fréttist það ef eitthvert eitt svæði eða eitt land veitir meiri aðstoð en næsta land eða næsta svæði. Það verður til þess að þetta fólk leitar frekar hingað en annað, skiljanlega, vegna þess að við erum að tala um hóp fólks sem er í leit að betra lífi, sem er að flýja hörmungar. Það er ekkert rosalega ólíkt því þegar stór hluti þjóðarinnar fór vestur um haf. En heimsmyndin er ekki sú sama nú og þá. Þeir landnemar sem fóru héðan til Vesturheims á sínum tíma fengu enga aðstoð. Þeir fengu einhvern jarðarskika en síðan var það undir þeim sjálfum komið hvernig þeim farnaðist. Því miður dóu margir úr sjúkdómum sem voru óþekktir á Íslandi þegar þeir fóru vestur um haf og menn stráféllu þar á fyrstu misserunum.

Núna er þetta hins vegar þannig að þeir sem leita að alþjóðlegri vernd á einhverju svæði, hvar sem það er, njóta réttinda, ganga að þeim gefnum. Það er kannski vegna þess hvað þessi réttindi eru orðin umfangsmikil að nágrannaþjóðir okkar, sem hafa verið mjög áberandi í móttöku fólks sem sækir um alþjóðlega vernd, eru núna komnar á þann stað að þær ráða ekki við ástandið. Þessu voru gerð ágæt skil hér fyrr í kvöld í ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar. Það var í sjálfu sér ánægjulegt að það skyldi koma hér þingmaður úr Sjálfstæðisflokknum vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera fjarverandi þessa umræðu, ekki bara hér í dag heldur er hann búinn að vera fjarverandi umræðu um hælisleitendamál núna í þó nokkuð langan tíma. Það er eins og það elti þann ágæta flokk að ef menn standa frammi fyrir verkefni eða vandamáli þá bíða þeir og þumbast við og þegja og vona að vandamálið hverfi. En það er bara því miður ekki svo um þetta mál, ágætu Sjálfstæðismenn. Það hverfur ekki, því miður. Það mun þvert á móti vaxa. Það mun þvert á móti verða þyngra í vöfum, sérstaklega fjárhagslega. Það er fyrst og fremst vegna þess sem við Miðflokksfólkið erum núna að vara við afleiðingum af því að samþykkja þetta frumvarp. Það er hreint ekki út af því að okkur sé illa við útlent fólk, og heldur ekki ef þetta útlenda fólk er af öðrum kynþætti eða öðrum trúarbrögðum. Þetta snýst ekki um það, hreint ekki. Við viljum gera það sem Íslandi ber í þessum málum. Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálina en við viljum ekki taka á móti stórum hópi fólks sem við ráðum ekki við að sinna almennilega.

Þá minni ég aftur á það, herra forseti, sem ég sagði áðan, það hefur sannast á síðastliðnum 20 árum hér á Íslandi og á síðustu 35–40 árum í Skandinavíu að ef menn missa ástand hælisleitendamála úr böndum, ef menn missa tökin, þá fylgja því alls konar vandamál, félagsleg vandamál og mál af fleira tagi, því miður. Þetta hefur ekkert með það að gera að fólk sem er á ferð um heiminn sé eitthvað verra fólk en annað, alls ekki. Þetta snýst um það að ef fjöldinn er orðinn þannig að menn ráða ekki við ástandið þá er voðinn vís. Og á hverju bitnar það? Það bitnar á þessu sama fólki sem menn hafa tekið á móti og boðið velkomið en geta síðan ekki sinnt eins og vera skyldi. Það er það ástand sem við viljum vara við, Miðflokksfólkið.

Frumvarpinu sem hér liggur fyrir fylgir engin kostnaðargreining. Það virðist enginn vita, og það hefur verið þráspurt um þetta, við hverju menn búast, þ.e. kostnaði af þessu. Menn hafa bent á það, af því að í grunninn er þetta frumvarp líka um Fjölmenningarsetur og menn hafa einblínt á að það séu bara örfá stöðugildi sem fylgja samþykkt frumvarpsins. En þá segi ég aftur: Þetta frumvarp er eins og ísjaki, það er bara einn níundi sem stendur upp úr. Það er þess vegna sem verður að gaumgæfa betur kostnaðarleg áhrif þess að samþykkja það. Við verðum að vita það, herra forseti, áður en við samþykkjum það hér á þingi. Við verðum líka að vita það vegna þess að við verðum að vera viss um að við getum sinnt því fólki sem hingað ratar, eins og ég sagði áðan, með sómasamlegum hætti. Við getum ekki, hvorki okkar vegna og enn þá síður þessa fólks sem hingað ratar, gert því það að hrúga því saman einhvers staðar yfir engu eða litlu með þeim ærnu vandamálum sem slíkri vist fylgja. Víst hefur það komið fram að núna meðan kerfið okkar er búið að vera springa smátt og smátt og þenjast út smátt og smátt vegna þess að það er ekki burðugt, þá höfum við dæmi um að fólk hefur verið hér allt upp í sjö ár í reiðileysi, eins og maður segir, með enga stöðu. Síðan hefur staðið til í mörgum tilfellum að vísa þessu fólki frá eftir allan þennan tíma, sem er mannvonska, herra forseti.

Þess vegna höfum við lagt áherslu á það, Miðflokksfólk, að erindi sem fylgja landtöku hér beri að afgreiða mjög fljótt. Það ber að komast að því mjög fljótt hver staða viðkomandi einstaklings er. Ég hef sagt það í ræðustól áður, herra forseti, og þetta eru gamlar tölur og hugsanlega orðnar töluvert mikið breyttar, en ég vann á alþjóðaflugvelli í 11 ár, á árunum 1996 til að verða 2008, og yfir þann tíma, þessi ellefu ár, höfðu 2% af þeim sem hingað komu í leit að alþjóðlegri vernd stöðu flóttamanns samkvæmt flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég geri ráð fyrir því að þessi tala hafi hækkað heldur, herra forseti. En ég þykist jafnframt vita að þetta er mikill minni hluti af þeim sem hingað rata.

Það er tvennt sem við höfum bent á. Í fyrsta lagi er það að fjöldi þeirra sem hingað rata í leit að alþjóðlegri vernd er fólk sem smyglað er á milli staða, sem hefur selt aleigu sína, sem hefur jafnvel ofurselt framtíð sína í hendur einhverra þrjóta sem flytja það milli landa. Við myndum gera best í því, herra forseti, að stöðva ána við upptökin, þ.e. að forða þessu fólki frá því að lenda í klóm smyglara. Smygl á fólki er og hefur verið um nokkurn tíma jafn útbreitt og ábatasamt og smygl á fíkniefnum. Og eftir að þrjóturinn er búinn að „selja farmiðann“ þá er honum, sem ætlar að smygla viðkomandi á milli landa, algjörlega sama hvort sá er lífs eða liðinn þegar hann kemur á áfangastað.

Það eru þessar hörmungar, herra forseti, sem við verðum að forðast. Það eru þessi örlög sem við þurfum að forða fólki frá. Nú þegar Danir eru að reka af höndum sér eða senda úr landi fjöldann allan af fólki, þá er það ekki síst vegna þess að þeir segja: Við getum hjálpað miklu fleirum fyrir sömu upphæð nær þeirra heimabyggð.

Ég held að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi verið með fyrstu mönnum sem ræddi þetta á sínum tíma og að vanda þá fékk hann yfir sig gusur af illmælgi fyrir vikið. En það vildi svo til að stuttu eftir að hann hreyfði þessu máli hér þá gaf Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna þetta út sem nokkurs konar stefnu. Það væri æskilegra, viturlegra, hagkvæmara og betra fyrir alla aðila að hjálpa fólki nær sinni heimabyggð en leggja á það þetta ferðalag sem ég lýsti áðan, lenda í höndum óprúttinna aðila sem svífast einskis og er alveg sama hvernig og í hvaða ásigkomulagi fólk er þegar það mætir loks á áfangastað.

Herra forseti. Að auki er rétt að benda á að afleiðing af þessum fólksflutningum er sú að mjög stór og fjölmennur hópur barna er núna í reiðileysi um alla Evrópu, fylgdarlaus, og er auðveld bráð fyrir alls konar misindismenn sem eru á ferð þar. Við verðum líka að forða því að börn hljóti þau örlög að lenda í höndum slíkra manna. Því er um að gera (Forseti hringir.) að aðstoða þetta ágæta fólk nær sinni heimabyggð og taka á móti þeim fjölda sem við ráðum við. — Ég sé að ég er hvergi nærri búinn þótt tíminn sé búinn, herra forseti, og bið því um að verða settur aftur á mælendaskrá.