151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[20:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil hér í þessari annarri ræðu minni undir þessu máli ræða örlítið um kostnaðarmat þessa frumvarps og þau sjónarmið sem komið hafa upp í því sambandi og auðvitað áfram á þeim nótum að við verðum að hafa í huga þau skilaboð sem samþykkt frumvarpsins sendir og þau afleiddu áhrif sem af því kunna að hljótast og ég leyfi mér að fullyrða að munu hljótast.

Ég ræddi það í nokkuð löngu máli, eiginlega eins löngu og ég mátti, við 1. umr. málsins að mér þætti kostnaðarmatið, í 6. kafla greinargerðar frumvarpsins um mat á áhrifum, vægast sagt vafasamt. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna hér til texta frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Áætlað er að hið aukna hlutverk Fjölmenningarseturs muni kalla á tvö stöðugildi til lengri tíma litið auk kostnaðar vegna starfsaðstöðu á höfuðborgarsvæðinu. Launakostnaður nemur árlega um 23 millj. kr. auk einskiptiskostnaðar vegna búnaðarkaupa að fjárhæð 700 þús. kr. Í heildina er kostnaðarauki ríkissjóðs 23,7 millj. kr. …“

Er einhver sem trúir þessu, að þetta verði raunveruleg kostnaðaráhrif þessa frumvarps? Það þarf að horfa alveg einstaklega þröngt á málið til að það geti staðist einhverja skynsemisskoðun.

Ég reiknaði með því satt best að segja að það yrði einhver ígrunduð umfjöllun um áætlaðan kostnað af samþykkt þessa frumvarps í ljósi afleiddra áhrifa í nefndaráliti sem kæmi fram hér við 2. umr. frá meiri hluta velferðarnefndar. Undir það rita Helga Vala Helgadóttir formaður, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen og Vilhjálmur Árnason. Í þessu nefndaráliti, sem telur einar fimm blaðsíður, er ekki einu orði vikið að þessum kostnaðaratriðum. Það sem kemst því næst er það sem segir á fyrstu síðu nefndarálits, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun nefndarinnar kom fram ábending frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að þörf kynni að vera á að félagsmálaráðuneyti vistaði sérstakan sjóð, viðbragðssjóð, sem aðstoðaði sveitarfélög við að mæta óvæntum kostnaði vegna móttöku flóttafólks.“

Þessar varlega orðuðu athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga voru settar fram í umsögn um málið, sem er svona rúm síða, en það vekur athygli að önnur málsgrein umsagnar sambandsins byrjar svo, með leyfi forseta:

„Það kemur á óvart að frumvarpið skuli lagt fram að nýju án þess að tillit hafi verið tekið til ítarlegrar umfjöllunar velferðarnefndar um frumvarpið á fyrra löggjafarþingi.“

Nú verð ég að viðurkenna að ég er búinn að bera saman nefndarálitið sem nú liggur fyrir og síðasta þings en manni sýnist á öllu að þetta hafi i verið lagt fram án þess að síðasti hringur eða síðasta atrenna ráðherra hafi verið tekin til skoðunar í því samhengi. Þessi varfærnislega orðaða athugasemd Sambands íslenskra sveitarfélaga undirstrikar að með þessu má segja að sé verið að senda boltann að nokkru leyti yfir á sveitarfélögin frá því fari sem málin eru núna í. Ef menn eru almennt þeirrar skoðunar að þeir samningar sem gerðir hafa verið — nú nefni ég sérstaklega samninga sem hafa verið gerðir við Reykjanesbæ, Hafnarfjörð, ég held að Reykjavík hafi verið þriðja sveitarfélagið í því knippi, þá hefur það nú ekki verið átakalaust og þarf ekki annað en að vísa bara til fréttaflutnings af þeim og sjónarmiðum sveitarfélaganna sem hafa komið fram í því samhengi.

Það stenst auðvitað enga skynsemisskoðun að þetta frumvarp hafi kostnaðaráhrif upp á 23,7 milljónir, og þar af sé hluti einskiptiskostnaður, þegar fyrir liggur að kostnaður af stökum hælisleitanda samkvæmt opinberum gögnum og upplýsingum er að jafnaði um 6 millj. kr. á ári. Við þekkjum þessar tölur frá liðnu ári, heildarkostnaður um 4 milljarðar. Ef það er raunverulega ásættanleg leið í frumvarpi eins og þessu að taka eingöngu tillit til mjög afmarkaðs kostnaðar og í engu til afleidds kostnaðar frumvarps þá væri æskilegt að fá að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra, hvort ráðherrann telji það bara beinlínis standast lög um opinber fjármál að leggja fram mál með þessum hætti. Þetta virðist hafa verið sett aftur í prentarann með uppfærðri dagsetningu og málsnúmeri frá síðustu framlagningu miðað við þessa umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. En fyrir okkur þingmenn sem erum hér að taka þessar ákvarðanir, þ.e. um það hvernig regluverkið á að vera, þá verðum við að hafa þessar upplýsingar forsvaranlega fram settar fyrir okkur. Segjum að það kæmu bara tíu viðbótarumsækjendur, ef við notum bara meðaltalskostnað hvers einstaklings, samkvæmt þeim tölum sem ég vísaði í áðan, ef við tökum bara meðaltalstöluna og segjum það vera tíu sem komi aukalega, í ljósi þess að fyrir liggja upplýsingar um það, eins og segir í framsöguræðu hæstv. félags- og barnamálaráðherra, með leyfi forseta:

„… hefur verið unnið að samræmdri móttöku flóttafólks, óháð því hvort það kemur á eigin vegum, í gegnum alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða með samræmdri móttöku flóttafólks.“

Þetta kemur á sama tíma og Skandinavíuþjóðirnar, að ég held allar, eru að fara í hina áttina hvað þessi skilaboð varðar. Ef þessi skilaboð orsaka bara fjölgun um tíu þá er það 150% aukning á kostnaði miðað við það kostnaðarmat sem liggur fyrir í þessu frumvarpi. Og auðvitað nefni ég þessa tölu tíu svona hálfgert — ja, ég ætla ekki að segja í gríni, það væri ekki við hæfi, en áhrifin koma fram af þeim á þeim hraða, eins og við þekkjum, að við fáum ekki neitt við ráðið.

Ég minni á prýðisræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar hér fyrr í umræðunni þar sem hv. þingmaður fór svo vel yfir það að hælisleitendakerfi Evrópu væri raunverulega hrunið. Það þýðir að straumurinn, rétt eins og með vatnið, leitar þangað sem fyrirstaðan er minnst í tilviki vatnsins, en í þessu tilviki þá verður straumurinn til þess lands þar sem mest og best þjónusta er veitt. Í þessu sambandi finnst mér nauðsynlegt að minna á og halda því til haga að við eigum að taka vel á móti þeim sem við tökum á móti, en við getum ekki gert allt fyrir alla og í þessu samhengi þá verðum við að draga lærdóm af því sem nágrannaþjóðir okkar eru að gera núna. Ég held að það verði látið reka á reiðanum, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson kom inn á hér áðan, að menn loki bara augunum og láti þetta allt ganga stjórnlaust. Þá mun ekki verða við neitt ráðið og það væri ánægjulegt að fá hér þingmenn fleiri flokka — hv. þm. Brynjar Níelsson kom með prýðilegt innlegg í umræðuna áðan. En það sem mig fýsir að vita er hvort það sé raunverulega þannig að þingmenn flestra flokka hér á þingi telji engin afleidd áhrif verða af þessu frumvarpi, því að ef það er raunin þá erum við á vondum stað.