151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[22:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja það að það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni að það eru hryðjuverkamenn úti um allt og skemmst að minnast hræðilegra atburða í Noregi í Útey, eða sprenginganna í Oklahoma, Timothy McVeigh eða hvað hann hét. Þetta er jafn brjálað fólk, ég ætla bara að orða það þannig, eins og múslímskir hryðjuverkamenn eða einhverjir sem aðhyllast aðra trú eða eru af einhverjum öðrum toga. Það er alveg klárt.

Mig langar að lesa hér örlítið upp, herra forseti. Þetta er svar við fyrirspurn á Alþingi. Það er framfærsla, desembergreiðslur, barnabætur, meðlag, leikskóli, skólamáltíðir, frístundaheimili, skólabyrjun, íþróttir og tómstundir, framhaldsskóli, strætókort, sértækur stuðningur í skóla, íslenskukennsla, grunnkostnaður leikskóla, húsaleiga, húsnæðisbætur sveitarfélags, sími og internet, heilbrigðisþjónusta, heilbrigðisvottorð, gleraugu, tannlæknir, sálfræðiþjónusta o.s.frv. Þetta er það sem við gerum fyrir kvótaflóttamenn í dag. Við erum að segja að allir sem fá dvalarleyfi fái allt þetta líka. Ég held að þetta séu mjög góð skilaboð fyrir þá sem vilja koma hingað, hvort sem þeir hafa þörf fyrir það eða ekki, og mögulega fyrir glæpahópa til að senda hingað fólk. Gulrótin er þarna, eins og ég skil þetta. Ég held að lausnin sé að við eigum að veita færri dvalarleyfi. Þurfum við að styrkja þær stofnanir sem fjalla um þessi mál? Mögulega eigum við að gera það. Þarf skýrari reglur? Mögulega. Þá eigum við að skýra þær. Mér skilst t.d. að okkar löggjöf sé þannig að hún leyfi meiri frestanir og framlengingar en sambærileg löggjöf annars staðar á Norðurlöndunum. Af hverju erum við að því? Af hverju breytum við því ekki til samræmis? Það er þetta sem ég hef áhyggjur af, (Forseti hringir.) í fyrsta lagi að kostnaðurinn fari úr böndum og í öðru lagi að hingað streymi fólk sem þarf kannski ekki á því að halda.