Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

afgreiðsla rammaáætlunar úr nefnd.

[11:45]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég deili ekki við hæstv. forsætisráðherra um þau atriði sem hún nefndi í sinni ræðu, Skrokköldu, neðri Þjórsá o.s.frv., en það er öllu snúið á haus þegar kemur að varúðarreglunni og færslu á kostum úr vernd í bið — úr vernd í bið. Það vill þannig til að við erum að tala um kosti sem hafa eitthvert hæsta verndargildi samkvæmt mati faghópa sem unnið hafa fyrir verkefnisstjórnina og þeir eru í verndarflokki vegna náttúruverndarhagsmuna. Það er ekki í samræmi við varúðarregluna að taka kosti úr vernd í bið. Það hreinlega gengur ekki upp, hæstv. forseti. Það hljóta því að vera einhverjar aðrar ástæður þar að baki. Það hljóta þá að vera einhverjar aðrar ástæður þar að baki af því það eru ekki náttúruverndarástæðurnar sem eru þar að baki. Því hlýt ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra aftur: Hvernig stendur á því að Vinstrihreyfingin – grænt framboð stendur að þeirri ákvörðun (Forseti hringir.) að færa Héraðsvötn og Kjalölduveituna úr vernd í bið?