Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

afgreiðsla rammaáætlunar úr nefnd.

[11:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tel rammaáætlun mjög mikilvægt tæki og ég hef satt að segja haft af því þungar áhyggjur að fylgjast með þeirri þróun sem hér hefur verið undanfarin sex ár, að ekki hafi verið unnt að ljúka afgreiðslu rammaáætlunar. Ég tek mark á því eftir að hafa hlustað á samþingmenn mína úr öllum flokkum sem ræða það að hér þurfi einfaldlega að horfa til minni áfanga og undir það er tekið í nefndaráliti meiri hlutans og ég er eiginlega viss um að hv. þingmaður er mér sammála af því að við þurfum auðvitað að vega það og meta hvað er athugavert við það þegar við erum fjórum sinnum búin að leggja þetta fram og náðum ekki að klára það. Ég vil minna á, þegar við erum að ræða að Alþingi hafi hér síðasta orðið, að það var algerlega meðvituð ákvörðun þegar lögin um rammaáætlun voru samþykkt á sínum tíma að Alþingi skyldi hafa síðasta orðið, að rammaáætlun kæmi einmitt ekki fram frá verkefnisstjórn og yrði afgreidd óbreytt. Það var alveg sérstaklega rætt, eins og hv. þingmaður þekkir, hvort það ætti að vera reglan og það var tekin algerlega meðvituð ákvörðun um að svo yrði ekki. Þannig að ég stend algerlega með þessu. Fyrir þessu eru færð ákveðin rök í áliti meiri hlutans (Forseti hringir.) og ég held að við værum í verulegum vanda stödd, herra forseti, ef við ætluðum enn og aftur að leggja fram þennan áfanga rammaáætlunar og láta hjá líða að afgreiða hann í einhverri mynd. Ég held að þá værum við fyrst komin í vanda, herra forseti.