Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

geðheilbrigðismál eldra fólks.

[12:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir þessa góðu fyrirspurn. Ég velti því fyrir mér þegar hv. þingmaður fór yfir þessi mál sem tengjast geðheilbrigðismálum hvort ég ætti að nálgast svarið út frá stóru myndinni og fara yfir í kjarnann um öldrunargeðdeildina, sem sannarlega hefur verið áhugi fyrir, eða svara þeim spurningum beint sem hv. þingmaður beindi að mér í lok fyrirspurnar. Ég ætla að byrja á því að svara spurningunum. Það er hárrétt að skýrsla Ríkisendurskoðunar er mjög góð og hún dregur þetta aðeins fram, en það fær kannski ekki mikið pláss, eins og hv. þingmaður benti á. Þó kemur þetta fram á a.m.k. tveimur stöðum og á blaðsíðu 47 kemur fram að Landspítalinn, sem við verðum alltaf að vinna þetta með, það er ljóst, dregur þetta ágætlega fram og er sömu skoðunar, að miðað við mannfjölda og aldursdreifingu, þá breytingu sem við erum að horfa á þegar við tölum um áskoranir fram undan, sé þörf á 20 legurýmum og það megi gera ráð fyrir því að um 25% aldraðra verði með einhver geðræn einkenni. Og svo auðvitað, eins og hv. þingmaður veit, þá tengist þetta öðrum sjúkdómum eins og fíknisjúkdómum, heilabilunarsjúkdómum, sem eru að aukast o.s.frv. Ég skal koma að því í seinna andsvari hvað hefur staðið í veginum og hver áskorunin er raunverulega þegar kemur að skipulagi, mönnun, kostnaði o.s.frv.