Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við höfum aðeins tekið þetta samtal áður, ef ég má segja frá því, og ekkert nýtt í því, sérstaklega ekki varðandi það að bæta framsetningu, auka gagnsæi og auka skilning þeirra sem um málið fjalla, hvort heldur sem um er að ræða fjármálaáætlun eða fjárlög, eins og við höfum verið að ræða hér ítrekað í mörg ár og horfum á skrefin sem eru heldur hæg en einhver þó. Kannski er ekkert óeðlilegt að áætlun breytist ekki gríðarlega mikið á milli ára. Eins og við heyrðum fyrir ekki svo löngu hjá aðila sem heimsótti okkur ætti það náttúrlega helst að vera þannig að þetta yrði ekki hreyft í fimm ár eða jafnvel lengri tíma. Ég veit ekki hvort ég er endilega sammála því vegna þess að eins og kom líka fram erum við í þannig hagkerfi að það hreyfist talsvert.

Það er eflaust alltaf hægt að deila um hvort að stefna stjórnvalda birtist með nægjanlega skýrum hætti í áætlun á hverjum tíma. Við getum eflaust hjálpast að við að reyna hafa minna orðasalat, eins og hv. þingmaður orðaði það, og meiri markmiðasetningu eða eitthvað slíkt, þar sem hlutirnir koma betur fram og ég er alveg sammála honum í því. Aðgerðaáætlanir koma fram og birtast í fjárlögum, í sjálfu sér má svo sem segja það. Þetta er auðvitað stóra plaggið en það gæti alveg samt verið skýrara. Um það erum við, held ég, alveg sammála. En þetta eru samt stóru línurnar, við megum ekki gleyma því. Við útfærum svo hið svokallaða „hvernig ætlum við að gera það“. Það er kannski meira í fjárlögum hvers árs. En það væri samt hægt að draga það betur fram á hverjum tíma í stefnumálunum, ég er alveg sammála því.