Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Vissulega á það að koma nákvæmlega fram í fjárlögum hvernig á að að framkvæma hlutina á því ári, en stefnan, markmiðin eiga að koma fram í fjármálaáætlun. Nefna má dæmi um, ekki bara orðasalat heldur villandi orðalag í stjórnarsáttmála þar sem segir, með leyfi forseta: „… setja okkur sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005.“

Svo segir á þremur stöðum í fjármálaáætlun, með leyfi forseta: „Ísland tekur þátt í markmiði ESB um að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda verði 55% árið 2030 miðað við losun árið 1990.“

Síðan er talað um að samkvæmt samkomulagi við Evrópusambandið taki Ísland og Noregur þátt í sameiginlegu markmiði um 55% samdrátt sem hefur verið hert úr 40 í 55% og innan 40% markmiðsins sé ábyrgð Íslands 29% sem fellur utan ETS. Svo er enn og aftur talað um sjálfstætt markmið, um 55% miðað við árið 2005. Þetta er fram og til baka. Þarna er eitthvað sem er haldbært, 55% samdráttur, en stjórnvöldum tekst á einhvern undraverðan hátt að setja það fram á þrjá mismunandi vegu með röngum dagsetningum fram og til baka í fjármálaáætluninni sinni. Hvernig gengur það?