Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, eins og ég hef sagt og við höfum rætt það í nefndinni og ég held að við séum öll sammála um það. Við höldum áfram að atast í því. Fjármálaráðuneytið er búið að koma til okkar nokkrum sinnum á fund og við höfum, held ég, öll, eða mörg að minnsta kosti, látið þá skoðun í ljós að við séum mjög ósátt við þetta, hvernig þetta birtist okkur. Það á auðvitað ekki að vera þannig að plögg af hálfu ríkisins séu með öllu óskiljanleg eða illskiljanleg eða a.m.k. það flókin að það þurfi sérfræðinga til að lesa þau og sumir skilji þau jafnvel ekki. Það er ekki gott. Ég tel að við getum í samstarfi við þau lagt fram okkar hugmyndir um það hvernig við myndum vilja sjá þetta, eins og ég hef sagt áður, og að þau séu líka til í að koma með okkur í þetta verkefni. Það er nú stundum sagt að það gangi hægt að snúa sumum skútum eða skipum og með ferlinu með lögum um opinber fjármál erum við hægt og sígandi að færast í eitthvert form. En ég tel að það sé kominn tími á að endurskoða þetta form með tilliti til þess að við gerum þetta einfaldara, því að í fyrsta lagi þarf þetta bara að vera einfaldara, þetta þarf ekki að vera svona flókið. Alveg eins og með fjárlögin sem eru margendurtekin en bókin gæti verið helmingi þynnri, hugsanlega. Mér finnst það a.m.k., þannig að við getum tekið höndum saman um það. Ég þekki vinnuna í sveitarstjórn eins og hv. þingmaður þar sem maður gerir fimm ára áætlanir og þær eru ekki svona flóknar. Sannarlega ætla ég ekki að halda því fram að hægt sé að jafna einu sveitarfélagi á við ríkið. (GE: Lesa …) Já, við sem það kunnum, kunnum að lesa eitthvað fram úr því. Við lærum það eins og svo margt annað. En þetta er alveg rétt. Þetta er ekki gott og á ekki að vera þannig að við þurfum að fá einhvern mannskap í lið með okkur til að reyna að lesa.