Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að það hafa margir nefnt það að skattleggja með ýmsum hætti. Við nefnum í álitinu að við teljum að það þurfi t.d. að horfa til góðrar stöðu hjá útgerðinni. Við nefnum að það væri ástæða til að horfa til komugjalda. Þetta er eitthvað sem við teljum alla vega að sé ástæða til að skoða, sérstaklega í ljósi stöðunnar akkúrat eins og hún er núna og ekki síst í ljósi þess að að uppgangurinn í þessum greinum er talsvert mikill. Það var alla vega vilji til að skoða það eitthvað nánar. En sannarlega eru lagðir til ákveðnir tekjuskattsstofnar, það er nú ekki bara verið að hækka brennivínið í Leifsstöð um 150 kall eða eitthvað svoleiðis, það er verið að leggja til fleira en það. Við skulum sjá hvort það skilar okkur einhverju. En ég sjálf er alla vega ekki andsnúin því og ég heyri að meiri hlutinn er ekki algerlega mótfallinn því að skoðaðar verði aðrar leiðir.