Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:00]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það kemur mér svo sem ekki á óvart þegar hv. þingmaður segir: Ja, ég get ekki útskýrt það því að það er ekki hérna. Það er kannski hluti af því sem við erum að fjalla um í þessum áætlunum, hefur mér alla vega fundist ef ég horfi á það frá mínum bæjardyrum. Við erum hérna með stóra áætlun þar sem við erum að horfa fram í tímann og skilaboðin til okkar allra eru að við þurfum aðeins að fara að gæta að útgjöldunum. Síðan erum við með tekjurnar hinum megin og við erum að spá fyrir um tekjur. Við gerum þá spá reglulega. En það virðist vera í þessu samhengi þegar við höfum fengið einhverja dýfu eins og við gengum í gegnum Covid-faraldurinn og þess háttar, að þegar við réttum úr kútnum þá virðumst við vera alveg ofboðslega fljót að skjóta yfir þær hagspár sem búið er að gera. Í því samhengi, eins og bara varðandi það sem snýr að hagvexti, þá virðumst við vera einhverjum prósentum yfir þeirri spá sem var gerð fyrir sirka sex mánuðum síðan, þannig að við erum að fjalla um ákveðna áætlun sem við horfum eitthvað fram í. Því er spurningin sem ég vil bera til hv. þingmanns kannski sú að að við erum með ákveðna áætlun og hvort það séu ekki næstum því óraunhæfar kröfur að reyna að hafa áætlanirnar nákvæmari inn á hvert málefnasvið þegar við eigum meira að segja mjög erfitt með að spá fyrir um hverjar tekjurnar verða í framtíðinni.