Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að stikla á stóru í nefndaráliti mínu þar sem tímaramminn er þröngur. Sú fjármálaáætlun sem hér um ræðir er fyrsta fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar. Tilgangur slíkrar áætlunar er að útskýra nákvæmlega hvernig eigi að framkvæma og fjármagna loforð ríkisstjórnarinnar eins og þau birtast í stjórnarsáttmála. Yfirlýsingar formanna ríkisstjórnarflokkanna virðast þó hafa skolast til í raunverulegri útfærslu því að ljóst er af lestri áætlunarinnar að pólitísk stefnumótun hefur vikið fyrir framreikningi í fjármálaráðuneyti. Að lestri loknum situr eftir ákveðin tómleikatilfinning þegar ljóst er að landið er á eins konar sjálfstýringu, þó með mikilvægum, og í sumum tilvikum ógnvænlegum, undantekningum fyrir þau okkar sem telja hlutverk ríkisins vera að stuðla að samstöðu í samfélagi okkar, að skapa þá tilfinningu að við séum öll í þessu saman. Kerfislægur vöxtur skýrir nær allar breytingar í þessari fjármálaáætlun. Ríkisstjórnin treystir sér ekki einu sinni til að útfæra aðhaldsaðgerðir á tímabilinu. Að sumu leyti kemur það ekki á óvart enda eru margir þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin sé mynduð um stöðnun fremur en stöðugleika. Íslensk þjóð stendur frammi fyrir stórum verkefnum og breyttri heimsmynd; eftirköst heimsfaraldurs, mesta verðbólga í 12 ár, brotinn húsnæðismarkaður, stríð í Evrópu, og ríkisstjórnin leggur fram fjármálaáætlun sem felur í sér einfaldan framreikning. Þau virðast búa í öðrum veruleika en meiri hluti þjóðarinnar. Að minnsta kosti er svigrúm til aðgerða svo takmarkað að þau geta ekki einu sinni framfylgt sínum eigin hugmyndum um hvernig bæta megi samfélagið sem þau eiga að veita forystu.

Ríkisstjórnin boðaði endurskoðun á mikilvægum þáttum velferðarkerfisins í stjórnarsáttmála í vetur. Þar kom fram að afkoma ellilífeyrisþega yrði áfram bætt og sérstaklega litið til þeirra sem lakast stæðu. Enn fremur stóð þar að málefni örorkulífeyrisþega yrðu tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu og að sérstaklega yrði horft til þess að bæta afkomu þessara hópa. Ekkert slíkt verður þó gert ef marka má fjármálaáætlun. Engar fjárheimildir eru fyrir slíku hér. Allt tal um að breytingarnar munu bæði bæta kjör fólks og auka hagræði í kerfinu og þess vegna þurfi ekki aukið fjármagn á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Vissulega geta uppstokkun og breytingar falið í sér aukna virkni meðal eldra fólks. Betri nýting endurhæfingarúrræða getur dregið úr örorku og aukinn aðgangur að heilbrigðisþjónustu sömuleiðis. En slíkt „hagræði“ út frá óskilgreindri uppstokkun birtist ekki á fimm ára tímabili. Við verðum að horfast í augu við það sem samfélag að rýrnun innviða, bæði efnislegra og óefnislegra, undanfarinn áratug hefur orðið til þess að mikil uppsöfnuð skuld hefur skapast. Íslenska ríkið er fast í viðjum stöðnunar sem það mun ekki komast úr hjálparlaust.

Við þurfum að sameinast um það að komast út úr þessu slæma jafnvægi. Sameining og samstaða meðal þjóðar hagnast lítið á samvinnu stjórnmálaflokka ef sú samvinna elur af sér pólitískar ákvarðanir sem stía fólki í sundur í stað þess að höfða til samfélagskenndar fólks. Raunveruleg forysta á tímum sem þessum felur í sér ákall til fólks um að við stöndum saman um það að endurstilla velferðarkerfi okkar. Þar komum við að því sem er að stjórnmálum okkar daga, þeim stjórnmálum sem ríkisstjórnir undanfarinn áratug hafa stundað og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur heldur á lífi. Fyrst og fremst skortir kjark til að taka alvöruákvarðanir um að styrkja velferðarkerfi okkar með langtímasýn að leiðarljósi. Takmarkaður vilji er til að horfast í augu við það að til skamms tíma munu slíkar aðgerðir kosta okkur meira en sem nemur sparnaðinum. Mikilvægara er samt að við erum hætt að tala um hver tilgangurinn með þessu öllu saman er. Við erum hætt að tala um á hverju tilvist hins opinbera byggist.

Virðulegi forseti. Markmið stjórnvalda á ekki að vera að ná jafnvægi í ríkisfjármálum eins og heyrist svo víða, og nú þvert á ríkisstjórnarflokkana. Markmið stjórnvalda á að vera að þjónusta íbúa landsins og vernda samfélagið. Hvernig við náum því markmiði með hætti sem er sjálfbær og stuðlar að efnahagslegu jafnvægi snýr að tækjum og tólum; gjöldum og skattlagningu. Rökin með velferðarríkinu á síðustu öld snerust fyrst og fremst um samstöðu, um hvað við skuldum hvert öðru sem borgarar í þessu samfélagi. Í seinni tíð hefur rökræða um umfang og stöðu velferðarríkisins snúist í meiri mæli um að hve miklu leyti þeir sem lifa við skort eða erfiðleika í daglegu lífi bera ábyrgð á eigin stöðu, að hve miklu leyti aðstæður þeirra eru sjálfskapaðar og hvert umfang aðstoðar hins opinbera eigi að vera fyrir þá hópa. Á Íslandi birtist þetta til að mynda í þeirri þróun að barnabætur eru orðnar að fátæktarbótum, ólíkt því sem þekkist á Norðurlöndum þar sem allir fá greitt með hverju barni. Þar, en ekki hér, er hugmyndin að styrkja þá tilfinningu að samfélagið komi til aðstoðar, í samræmi við það sem stundum er sagt: Heilt þorp þarf til að ala upp barn. Skattheimta tekur þar mið af ólíkri fjárhagslegri stöðu fólks og þannig er stuðlað að auknum jöfnuði. Ekki með því að einangra einstaklinga frá framlögum hins opinbera ef viðkomandi er tekjuhár, heldur með því að skapa virka tengingu við velferðarríkið.

Við Íslendingar munum sitja föst í spennitreyju kerfislægs vaxtar á næstu árum og áratugum og missa tökin á útgjöldum ríkissjóðs ef stjórnarfarið breytist ekki. Og það sem meira er, og alvarlegra, þetta kjarkleysi er til þess fallið að grafa undan trú almennings á virði og gildi velferðarsamfélagsins því að fólk hættir að sjá ástæðuna fyrir því að greiða í sameiginlega sjóði ef það upplifir að þjónustan sem það fær í staðinn sé ófullnægjandi. Það gleymir á hverju tilvist hins opinbera byggist. Tengingin við velferðarsamfélagið og samtrygginguna rofnar. Þetta er grafalvarlegt mál.

Vantrú fólks á velferðarkerfi okkar og samtryggingunni eykst enn frekar þegar það mætir innstæðulausri orðræðu ríkisstjórnarinnar um að raunverulegar umbætur hafi átt sér stað í velferðarkerfinu eða séu í farvatninu, þrátt fyrir að fjármálaáætlun sýni svart á hvítu að lítið eigi að gera. Það stefnir alls ekki í nýtt og betra jafnvægi við þetta stjórnarfar. Þessi málflutningur, þar sem siglt er undir fölsku velferðarflaggi, er stórhættulegur. Hann rýrir trú fólksins í landinu á getu samfélagsins til að hlúa að því sem skiptir máli, sem er aðgengi að grunnþjónustu sem tryggir að þörfum fólks sé sinnt. Fólk glatar trúnni og hólfar sig af í stað þess að horfa í kringum sig. Brestir myndast í samfélaginu. En það eru aðrar mjög haldbærar ástæður fyrir því að hendur ríkisstjórnarinnar eru bundnar. Hér hefur ekki ríkt algjör stöðnun í aðgerðum ríkisins. Þróunin undanfarinn áratug hefur verið hápólitísk og það hefur ekki verið vegna afskiptaleysis. Ráðist hefur verið í risastórar aðgerðir sem hafa grafið undan getu ríkissjóðs til að sinna grundvallarhlutverki sínu í samfélaginu. Tekjuhlið ríkissjóðs er brostin.

Útgjaldaþróun næstu ára er ekki ástæðan fyrir því að kerfislægur halli er á ríkissjóði kjörtímabilið á enda samkvæmt fjármálaáætlun. Sá halli hefur ekkert með heimsfaraldur og einskiptisaðgerðir að gera heldur söfnum við skuldum vegna þess að þeir flokkar sem hafa verið við völd undanfarinn áratug hafa fjarlægt tugi milljarða króna úr ríkissjóði á hverju ári. Það hafa þeir gert með almennum skattalækkunum, lækkun gjalda og sértækum skattalækkunum án þess að litið hafi verið til annarra úrræða á tekjuhliðinni til að styrkja tekjustoðirnar. Verkalýðshreyfingin hefur bent á þetta í áraraðir en nú er svo komið að meira að segja fjármálaráð veitir þessari stöðu sérstaka athygli í nýjustu umsögn sinni um fjármálaáætlun. Ástæða þess að víða vantar fjármagn til að sinna grunnþörfum samfélagsins er ekki almenn óráðsía ríkissjóðs heldur hápólitísk ákvarðanataka um að veikja getu ríkisins til að veita grunnþjónustu.

Virðulegi forseti. Líkt og fjármálaráð fjallaði ítarlega um í umsögn sinni um fjármálaáætlun hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fjarlægt 41,6 milljarða kr. af tekjuhlið ríkisins með skattalækkunum undanfarin ár. Breytingar eru í formi almennra skattalækkana, skattastyrkja, lækkun tryggingagjalds, hækkunar á frítekjumarki erfðafjárskatts, breytingu á stofni fjármagnstekjuskatts og lækkun bankaskatts. Allar breytingarnar eru í sömu átt: Þær rýra tekjugrunn ríkissjóðs og þar með getu velferðarkerfisins til að standa undir grunnþjónustu. Höfum í huga að 42 milljarðar kr. eru helmingur fjárhæðarinnar sem rennur til Landspítalans árlega. Þetta er forgangsröðun sem jafnaðarfólki hugnast ekki. Þetta er sú pólitík sem yfirgnæfir öll önnur stefnumál þessarar ríkisstjórnar.

Vegna umræddar forgangsröðunar í ríkisfjármálum stefnir í að rýrar tekjur ríkissjóðs undir lok tímabils fjármálaáætlunar verði þær lægstu á öldinni sem hlutfall af landsframleiðslu og fer fjármálaráð ítarlega yfir þetta í umsögn sinni um áætlunina. Fjármálaráð bendir á að tekjur ríkissjóðs á mann á sama tíma verði svipaðar og árið 2001 þó að á þeim 20 árum sem síðan eru liðin hafi hlutfall aldraðra, 67 ára og eldri, af heildarmannfjölda aukist úr 10,23% í 12,95%. Þá hafi samfélagsgerðin breyst og því fylgi aðrar samfélagslegar kröfur og önnur viðmið. Leiða megi líkur að því að með breytingum á samsetningu mannfjöldans sé þörf fyrir meiri tekjuöflun á mann en nú.

Það er ekkert að finna í fjármálaáætlun um þær aðgerðir sem boðaðar voru í stjórnarsáttmála, til að mynda til að endurskoða skattmatsreglur, svo „koma mætti í veg fyrir óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga“, eins og fjármálaráð orðar það í umsögn sinni. Í stjórnarsáttmála var talað um að endurskoða þyrfti regluverk kringum tekjutilflutning til að tryggja að þau sem hefðu eingöngu fjármagnstekjur reiknuðu sér endurgjald og greiddu útsvar. Nei, virðulegi forseti. Þessar breytingar til að loka glufum í skattkerfinu okkar er ekki einu sinni hægt að ráðast í til að sækja tekjur. Alþýðusambandið hefur áður minnst á að glufur í skattkerfinu í tengslum við nýtingu einkahlutafélaga til að reikna sér fjármagnstekjur í stað launatekna hafi orðið til þess að hið opinbera verði af 3–8 milljörðum kr. árlega. Samband íslenskra sveitarfélaga tekur undir þetta. Þá kom það fram þegar fjallað var um fjármálaáætlun í nefndinni að hvergi í heiminum þekktist það fyrirkomulag sem tíðkast hér á landi að einstaklingum væri í raun frjálst að ákvarða hversu stór hluti af þeim tekjum sem skráðar eru gegnum umrædd einkahlutafélög væru fjármagnstekjur og hversu stór hluti launatekjur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði gert athugasemdir við verklagið hérlendis. Víða væri fyrirkomulagið með þeim hætti að ákvörðuð væri föst ávöxtun á það fjármagn sem er í félaginu og það endurspeglaði fjármagnstekjur. Afgangur af tekjum félagsins væri þá sjálfkrafa launatekjur. Það er með öllu óskiljanlegt að ríkisstjórnin hafi ekki ráðist í breytingar á þessu fyrirkomulagi sem verður til þess að hið opinbera, að langmestu leyti sveitarfélög, verða af mörgum milljörðum í tekjur á ári hverju. Af ofangreindu er nefnilega alveg augljóst að ríkissjóður er vanfjármagnaður. Það er óumdeilt.

Þrátt fyrir verulegt útgjaldaaðhald á tímabili fjármálaáætlunar er eftir sem áður kerfislægur halli á ríkissjóði. Þetta veldur gífurlegum áhyggjum, sérstaklega í ljósi þess að margt bendir til að engar líkur séu á því að hægt sé að standa við þann takmarkaða útgjaldavöxt sem boðaður er í fjármálaáætluninni. Alþýðusamband Íslands og BSRB hafa bent á óraunsæið sem felst í útgjaldavexti sem er minni en 1% á ári hverju og tekur fjármálaráð undir þau sjónarmið í umsögn sinni. Þá bendir fjármálaráð á að þrátt fyrir að raunvöxtur frumgjalda ríkissjóðs eigi að vera minni en 1% árlega sé reiknað með 1,3% raunvexti rammasettra útgjalda að meðaltali á stefnutímabilinu og þar með sé treyst á að vöxtur útgjalda utan ramma, sem telja megi að sé öllu óvissari en rammasett útgjöld, leggi meira til við að halda útgjaldavexti í heild í skefjum en rammasett útgjöld. Launaþróun stendur utan við rammann og ljóst er að sú aftenging sem stjórnvöld vinna ötullega að gagnvart launþegum í landinu og verkalýðshreyfingunni með því að grafa undan velferðarkerfinu er ekki til þess fallin að draga úr launakröfum á tímabili fjármálaáætlunar. Þetta er ólíkt því sem sést á Norðurlöndum þar sem litið er á samvinnu stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda sem grundvallaratriði í rekstri velferðarsamfélags. Þessi rammi er algjörlega óraunhæfur í því umhverfi sem hér er skapað.

Eftir stendur að útgjöld sem eru ekki lögbundin verða fyrir niðurskurðarhnífnum og eru fjárfestingar þar oftast fyrsti kostur, eins og reynsla síðasta áratugar sýnir. Þetta er áhyggjuefni í ljósi þess að fjárfestingarstig hér á landi er enn allt of lágt. Líkt og fjármálaráð bendir réttilega á er tæpast hægt að halda því fram að fjárfestingarstigið sé sérstaklega hátt í sögulegu samhengi þrátt fyrir svokallað fjárfestingarátak ríkissjóðs undanfarin ár. Þar að auki virðist því átaki nú sjálfhætt vegna spennitreyjunnar sem stjórnvöld hafa skapað sér með því að veikja tekjustoðir ríkissjóðs á kjörtímabilinu. Fram hefur komið við umfjöllun málsins í nefndinni að aukinn kostnaður við fjárfestingarverkefni ríkissjóðs, m.a. vegna þróunar í alþjóðamálum, muni leiða til þess að framkvæmdum sem hafa verið samþykktar í samgönguáætlun verði seinkað. Fjármagn sé einfaldlega ekki til staðar til að mæta þessari stöðu. Staðfesting fékkst á stöðunni og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar breytingartillögur við fjármálaáætlun bárust í skyndi, þar sem fjárfestingarstiginu er beinlínis beitt sem afgangsstærð. Skera á niður framlög til fjárfestinga um 10 milljarða kr. á næsta ári miðað við upphaflega áætlun. Og það þrátt fyrir skýra umfjöllun fjármálaráðs um að fjárfestingu eigi ekki að beita sem hagstjórnartæki.

Enn alvarlegri þróun má sjá þegar litið er á fjárfestingarstöðu sveitarfélaganna. Þar stefnir í sögulega lága fjárfestingu ef skoðað er hlutfall fjárfestingar af tekjum. Fjármálaráð vekur sérstaka athygli á þessari þróun og alvarleika hennar. Þróunin í fjárfestingarstigi sveitarfélaga verður ekki í tómarúmi. Niðurskurður hefur komið bakdyramegin frá ríki til sveitarfélaga og falið í sér að verkefni hafa verið flutt til sveitarfélaga án þess að nægilegt fjármagn hafi fylgt. Þetta hefur dregið verulega úr svigrúmi flestra sveitarfélaga til að halda fjárfestingarstiginu uppi. Niðurstöður skýrslu starfshóps um greiningu á kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk á árunum 2018–2020 sýna að halli í málaflokknum nemur um 17 milljörðum kr. Þeir 17 milljarðar kr. sem sveitarfélögin hafa þurft að greiða til að stoppa upp í vanfjármögnunargat ríkissjóðs bitna því beint á svigrúmi til fjárfestingar. Svipar þeirri upphæð til árlegs framlags til fjárfestingar á sveitarfélagastiginu öllu þegar fjárfesting var sem minnst árin eftir hrun. Miðað við fjárfestingarstig sveitarfélaganna í fyrra eru umræddir 17 milljarðar kr. um 40% af framlagi til fjárfestinga. Um verulegar upphæðir er því að ræða. Í því samhengi er vert að nefna að þeir 17 milljarðar kr. sem vantar í fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks eru ígildi þess skattafsláttar sem ríkið hefur veitt byggingargeiranum undanfarin ár þrátt fyrir mikla þenslu í atvinnugreininni.

Virðulegi forseti. Sökum tímaskorts ætla ég að benda á nefndarálit mitt varðandi umræðu um stök málefnasvið en fara hér stuttlega yfir stöðuna í heilbrigðismálum og húsnæðismálum.

Stórsóknina sem boðuð var í heilbrigðismálum í stjórnarsáttmála er ekki að finna í þessari fjármálaáætlun. Áætlunin sýnir það svart á hvítu að lítið er að marka orð heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um að ekki standi á fjármagni til spítalans til að laga vandann í heilbrigðiskerfinu. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 1,5% árlegum vexti að meðaltali í málaflokki sjúkrahúsþjónustu til ársloka árið 2027 þrátt fyrir að vitað sé að það er langt undir nauðsynlegum raunvexti. Spítalinn hefur talað um 2,5%. Það er vitað mál að einfaldur framreikningur í tengslum við öldrun, fólksfjölgun og hjúkrunarþyngd sem því fylgir ætti að þýða a.m.k. 2,5% aukningu á ári. Um fjórðungur legurýma á spítalanum er nú nýttur í öldrunarþjónustu. Hvergi liggur fyrir hvert eðlilegt umfang hennar á Landspítala ætti að vera og kallað hefur verið eftir því að verkefni verði skilgreind betur. Hjúkrunarheimili hafa verið vanfjármögnuð og uppbygging þeirra sömuleiðis, sem skilar sér í meiri þrýstingi á Landspítala. Sparnaðurinn sem næst með því að sleppa því að byggja hjúkrunarrými og nýta áfram pláss á spítalanum skilar sér ekki í meira fé til spítalans, enda þarf hann alltaf að taka við þeim sem til hans leita. Staðreyndin er sú að eftir árið 2023 er nær ekkert fjármagn í fjármálaáætlun fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimila þó að vitað sé að grunnvandinn í heilbrigðiskerfinu sé skortur á rýmum til að nýta eftir sjúkrahúsvist. Þetta vekur athygli í ljósi nýlegrar skýrslu um heilbrigðiskerfið sem ráðgjafarfyrirtækið McKinsey gaf út. Þar kom fram að nýr Landspítali væri nú þegar sprunginn að því er snerti legurými ef ekki yrði fjárfest í úrræðum fyrir langtímaumönnun. Fram kemur í skýrslunni að bæta þurfi við 240 úrræðum fyrir langtímaumönnunarsjúklinga, svo sem í heimaþjónustu, hjúkrunarrýmum og í endurhæfingu, til að spítalinn springi ekki. Sparnaður í heilbrigðiskerfinu við að ráðast í slíka aðgerð yrði 1–2 milljarðar kr. en rætt er um 9 milljarða kr. sparnað á Landspítala. Sá sparnaður myndi auðvitað aðeins birtast með tíð og tíma. En það stendur ekkert um þetta í fjármálaáætlun. Þetta bætist við þá illskiljanlegu staðreynd að varla er gert ráð fyrir neinum fjármunum í uppbyggingu hjúkrunarrýma eftir árið 2023. Spítalanum er þannig gert ókleift að færa sig úr spennitreyju vanfjármögnunar og laða að sér starfsfólk í heppilegt vinnuumhverfi ef þessi grundvallaratriði eru ekki leyst.

Virðulegi forseti. Aukið fjármagn verður að renna til spítalans. Það verður að standa straum af grunnrekstri og úrræðum sem draga úr umframkostnaði vegna skorts á hjúkrunarrýmum. Slík fjármögnun er forsenda þess að hægt sé að reka spítalann með eðlilegum hætti. Stjórn Landspítala og ríkisstjórninni er mikið í mun að lagðar verði fram alvörutillögur til framtíðar fyrir spítalann. Landspítali starfar ekki einn og sér heldur í kerfi sem þarf að virka og það kerfi þarf að fjármagna.

Virðulegi forseti. Mig langar að koma aðeins líka inn á heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa. Fram kemur í fjármálaáætlun að gert sé ráð fyrir því að raunvöxtur á greiðslum til Sjúkratrygginga Íslands í flestum málaflokkum verði ekki meiri en 2% á ári. Fram kom við umfjöllun málsins í nefndinni að skortur á fjármagni í málaflokki 24.2, Sérfræðiþjónusta og hjúkrun, geri það að verkum að talsverð áskorun verði að semja við sérfræðilækna á komandi misserum.

Ég vil vekja athygli í þessu samhengi á greiningu Öryrkjabandalags Íslands á aukinni greiðsluþátttöku fólks í heilbrigðisþjónustu frá árslokum 2018 þegar sérfræðilæknar, og sjúkraþjálfarar rúmu ári síðar, sögðu sig frá samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Þessi greining bendir til þess að vegna þessa hafi komugjöld, sem innheimt voru úr vasa almennings til viðkvæmra hópa til að standa straum af kostnaði, numið 1,7 milljörðum kr. Það er sem sagt afar brýnt að samið verði við umræddar stéttir og þá þarf svigrúm að vera í fjárveitingu sem virðist of lítið miðað við upplýsingar sem nefndinni hafa borist.

Þá langar mig í þessu samhengi einnig að nefna að Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa lýst áhyggjum af því að þjónustusamningar sem gerðir voru í vor við hjúkrunarheimili hafi ekki verið fullfjármagnaðir í þessari fjármálaáætlun. Svipaðar forsendur má finna í rekstrarframlögum til hjúkrunarheimila og Landspítala, eða um 1,5% raunvöxt. Það var von mín að hluta til að breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar við síðari umræðu tæki m.a. mið af umsögnum Landspítala og hjúkrunarheimila. Ljóst er að ekki varð af því. Þvert á móti er að finna frekari niðurskurð í þessum málaflokkum, sem ég hef þó ekki tök á að greina almennilega vegna þess að við í hv. fjárlaganefnd fengum ekki niðurbrot eftir rekstri og fjárfestingu hvernig niðurskurðurinn skiptist innan þessara málaflokka.

Virðulegi forseti. Að lokum langar mig að ræða um húsnæðismál. Hæstv. ráðherra lét eftirfarandi orð falla á Alþingi í vetur í umræðu um húsnæðismál, með leyfi forseta:

„Sá ráðherra er hér stendur leggur mikla áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis um allt land og hefur lagt inn tillögur í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 um verulega aukningu fjármuna til að fjölga uppbyggingu íbúða fyrir tilstuðlan opinbers húsnæðisstuðnings.“ Enn fremur sagði hann: „Og já, við erum með framtíðarsýn, við erum með plan og það skýrist.“

Það plan hefur nú skýrst og heitir fjármálaáætlun. Í þessari áætlun má finna 500 millj. kr. til viðbótar til að mæta fjölgun leigjenda á tímabilinu. Ekki er það aukinn stuðningur við hópinn heldur er þetta hinn vel þekkti kerfislægi vöxtur. Að öðru leyti dregst húsnæðisstuðningurinn saman. Stofnframlög til að byggja almennar íbúðir dragast saman um 2 milljarða kr. Innviðaráðherra bar það fyrir sig eftir að fjármálaáætlun birtist að enn væri verið að vinna að tillögum fyrir húsnæðismarkaðinn. Því væri ekki tímabært að tala um fjármögnun þeirra strax, þrátt fyrir yfirlýsingar um að ráðherra hefði þá þegar lagt tillögur inn í fjármálaáætlun. Fyrir nokkrum vikum birtust húsnæðistillögur stjórnvalda þar sem talað er um að ríkið, í samvinnu við sveitarfélög, ætli að stuðla að uppbyggingu 4.000 íbúða á ári næstu árin og þriðjungur verði með beinum stuðningi hins opinbera. Nýta eigi stofnframlög inn í almenna íbúðakerfið. Þrátt fyrir að auka eigi uppbyggingu og húsnæðisáætlunin sem innviðaráðherra vitnaði í sé nú fram komin bættist ekkert fjármagn við málaflokk húsnæðis- og skipulagsmála fyrir síðari umræðu um fjármálaáætlun. Núverandi stofnframlög til íbúðabyggingar eru um 3,7 milljarðar kr. Umræddar upphæðir hafa ekki einu sinni staðið undir þeim hér um bil 600 íbúðum sem byggja átti fyrir það fjármagn. Nú á að tvöfalda þær íbúðir sem verða fjármagnaðar með stuðningi ríkisins en framlag til málaflokksins er skorið niður um 2 milljarða kr. í stað þess að bæta öðru eins við hið minnsta. Nú ber ríkisstjórnin verðbólguhættu fyrir sig og því megi ríkið vart hreyfa sig. En misskilningur virðist ríkja um eðli kerfisins. Húsnæðismarkaðurinn er brotinn og drífur áfram verðbólguna. Kjarasamningaviðræður fara fram í haust og ríkisstjórnin heldur með tómar hendur inn í þær. Krónutöluhækkanir, niðurskurður í húsnæðismálum. Þetta lofar ekki góðu.

Virðulegur forseti. Forgangsröðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er ástæðan fyrir því að meiri hlutinn á Alþingi mun í vikunni samþykkja fjármálaáætlun sem mætir ekki neyðarástandi í heilbrigðiskerfinu, fjármagnar ekki boðaða húsnæðisuppbyggingu, skapar ekki svigrúm fyrir breytingu á kjörum viðkvæmustu hópa samfélagsins og veikir í ofanálag velferðarþjónustuna sem bindur okkur saman sem samfélag. Þessi pólitík er til þess fallin og í raun gerð til þess að grafa undan trú almennings á virði og gildi velferðarsamfélagsins því að fólk hættir að sjá ástæðuna fyrir því að greiða í sameiginlega sjóði ef það upplifir að þjónustan sem það fær í staðinn sé ófullnægjandi. Það gleymir á hverju tilvist hins opinbera byggist. Tengingin við velferðarsamfélagið og samtrygginguna rofnar.

Virðulegi forseti. Við jafnaðarfólk viljum virkja samtakamáttinn þvert á samfélagið og stuðla að því að þeir sem hefur gengið vel í lífinu átti sig á því að velgengnin var ekki aðeins afrakstur eigin framtaks heldur umhverfis sem gerði þeim kleift að skara fram úr, árangur meðfæddra eiginleika sem ekki eru öllum í blóð bornir og í mörgum tilvikum einfaldlega heppni. Efnisleg velgengni fólks getur vissulega verið misjöfn og við það er ekkert að athuga. En velgengni fylgir líka ábyrgð gagnvart samfélaginu og þá ábyrgð þarf að virkja þvert á samfélagið. Við þurfum einfaldlega að sammælast um hvað það er sem við skuldum hvert öðru sem borgarar í þessu samfélagi. Það er nefnilega hægt að gera þetta öðruvísi.