Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir ræðuna. Það eru ein þrjú atriði sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í. Auðvitað átti þingmaðurinn ekki möguleika á að fara að fullu yfir þetta yfirgripsmikla nefndarálit sem hér liggur fyrir og þakka ég fyrir það. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í er sú gagnrýni sem kemur fram á blaðsíðu 11 í nefndaráliti 2. minni hluta sem snýr að samgöngu- og fjarskiptamálum. Þar er komið inn á undir lok þess liðar, með leyfi forseta, eftir gagnrýni á að nú sé horft til þess að beita fjárfestingu sem afgangsstærð að það vanti töluvert upp á að þau markmið sem fyrir liggja séu líkleg til að nást. Það sem ég vildi koma inn á hér og spyrja hv. þingmann út í með dýpri hætti en mögulegt var fyrir hann að koma inn á í ræðunni er að hér segir:

„Þá vekur 2. minni hluti athygli á því að samningur ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um eflingu almenningssamgangna frá árinu 2012 gerði ráð fyrir 1.000 millj. kr. árlegum framlögum á föstu verðlagi úr ríkissjóði. Uppsafnaðar vanefndir á þeim samningi nema þó um 1,5 milljörðum kr.“

Síðan heldur þetta áfram, með leyfi forseta:

„Nú á að framlengja samninginn um 12 ár og mikilvægt að ríkið standi skil á framlagi sínu til verkefnisins að mati 2. minni hluta.“

En mig langar að spyrja hv. þingmann á hvaða nótum þetta var rætt í nefndinni. Nú er ég áheyrnarfulltrúi í nefndinni en á ekki möguleika á að sitja alla fundi. Á hvaða nótum var þetta tiltekna atriði rætt, þ.e. staðan samkvæmt þessum samningi? Er gert ráð fyrir uppgjöri þarna? Þessi framlenging til 12 ára sem er flaggað hér, er sá samningur þegar gerður og fastur eða er verið að horfa til þess að hann verði gerður, þ.e. að þessi framlenging verði gerð en sé ekki þegar orðin? Það væri áhugavert ef hv. þingmaður gæti farið í stuttu máli yfir það.