Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vakti náttúrlega sérstaklega athygli á því sem fram kom í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, að nýir þjónustusamningar væru ekki fjármagnaðir. Það kom auðvitað inn neyðarframlag í gegnum fjárlög síðast, í gegnum fjárlaganefnd, vegna þess að slíkur kostnaður var uppsafnaður. Það kom líka fram á þeim fundum, á nýjustu fundunum sem við héldum með Samtökunum, og kom líka fram í umsögn þeirra, að til að mynda eru stórir liðir þarna eins og betri vaktavinnutímar sem fá framlag á móti sem er langt undir raunverulegri stöðu þeirra. Ég myndi fullyrða, fyrst við erum komin á þennan stað, að það hafi verið mjög þungt hljóð í Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu út af stöðunni sem væri fram undan hjá hjúkrunarheimilum.

Varðandi mönnunarvandann. Maður heyrir auðvitað víða að það sé nú verið að opna pláss en ekki sé hægt að manna þau. En í þessu samhengi þurfum við að velta því fyrir okkur hvernig það er með reksturinn og rekstrarframlögin inn í þessar stofnanir, vegna þess að það liggur fyrir að við erum til að mynda með mörg hundruð menntaða hjúkrunarfræðinga sem hafa verið menntaðir hjá opinberum stofnunum en sjá sér ekki fært og hafa ekki áhuga á að vinna á þessum stofnunum út af álagi. Svo setjum við fram tillögu eins og með betri vaktavinnutíma sem á í rauninni að draga úr álagi fólks, en það úrræði er vanfjármagnað sem þýðir að álagið eykst annars staðar í kerfinu og við vinnum í rauninni á móti þeim starfsskilyrðum sem við ætluðum að skapa til að fá aukna mönnun inn í kerfið. Því er ég á þeirri skoðun að mönnunarvandinn sem er núna til staðar komi líka til vegna þess að reksturinn hefur verið vanfjármagnaður og það hefur ekki verið vilji til að fara í langvarandi rekstrarútgjaldaaukningu til þessara stétta til að laða þessa hópa til baka.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni og hv. formanni fjárlaganefndar hvað það varðar að stök rými munu ekki breyta neinu í stöðunni. Það er aðstaða þessa fólks og, til skamms tíma, ef það á að bjóða þeim upp á núverandi stöðu, þá eru það peningar sem skipta máli og hvað situr eftir á launaseðlinum, a.m.k. til að byrja með.