Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir umsögnina. Það er alltaf snúið að vera skutlað inn í eitthvert svona verkefni þegar maður hefur ekki verið að fylgjast með og tekið þátt í umræðunni, þó að við fáum öll upplýsingar frá okkar félögum, sannarlega. Ég geri ráð fyrir að svo sé einnig hjá hv. þingmanni eins og ég þekki sjálf.

En mig langaði aðeins að koma inn á málefni sem ég veit að hv. þingmaður þekkir sérstaklega vel og ég tek alveg undir þetta með tekjutengingu örorkulífeyris, sem við höfum svo oft rætt um, og tekjuskerðinguna, að það sé eitthvað sem við verðum að fást við og hv. þingmaður hefur auðvitað oft spurt um hér í þingsal. Það er ráðherrann með á sinni könnu, eins og við þekkjum, og er byrjaður að eiga við kerfið. Það hefur einhvern veginn ekki náðst samkomulag um hvaða leiðir hægt er að fara í þessu en sannarlega held ég að hann ætli að höggva á einhvern hnút. Ég heyri ekki betur en að það sé gert. Fram til þess að það gerist, eins og kannski með annað, þá hafa ekki verið settir inn fjármunir sem eru áætlaðir fyrir því þar sem ekki liggur beinlínis fyrir hvað verður ofan á í því efni.

Hér er talað um að ráðast í aðgerðir til að dempa þenslu í hagkerfinu og vinna gegn verðbólgu, að það sé grundvallaratriði að það verði gert til að milda þau áhrif gagnvart hinum tekjulægri og þá sérstaklega öldruðum og öryrkjum. Ég tek sannarlega undir það. Það er mikilvægt og auðvitað er búið að kynna hér til sögunnar ákveðnar aðgerðir en það þarf að fylgjast afskaplega vel með þessum hópi sérstaklega og bara fátæku fólki almennt, fólki sem lifir við mjög bágan kost. Það er eitt af því sem við erum að byrja að reyna að gera en við þurfum sannarlega að vera vakandi af því að við höfum ekki hugmynd um hvernig þetta þróast, ekki síst þetta árið.