Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  14. júní 2022.

flutningur fasteignaskrár frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

684. mál
[00:50]
Horfa

Frsm. velfn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings fasteignaskrár frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Frumvarpið felur fyrst og fremst í sér þá breytingu að í stað Þjóðskrár Íslands verði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun falin verkefni sem varða skráningu og mat fasteigna, en stofnunin annast nú þegar fjölmörg verkefni sem varða fasteignir og önnur mannvirki, svo sem umsýslu mannvirkjaskrár, eftirlit með byggingarfulltrúum, brunavarnir og rafmagnseftirlit, svo fátt eitt sé nefnt.

Með frumvarpinu er lagt til að stigið verði næsta skref í verkefnum sem snúa að fasteignaskrá með flutningi hennar til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem nú rekur nýja mannvirkjaskrá. Með því fengist bætt yfirsýn yfir húsnæðismarkaðinn, betri þjónusta við sveitarfélög og byggingariðnaðinn og hagræðing í ríkisrekstri. Yrði það jafnframt í samræmi við stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninginn, en stór hluti tillagna átakshóps stjórnvalda, sem skilaði tillögum sínum árið 2019, laut að því að bæta úr þeirri upplýsingaóreiðu sem ríkir á húsnæðismarkaði, m.a. vegna skorts á aðgengilegum, réttum og tímanlegum upplýsingum um húsnæðismál og vegna mismunandi skilgreininga aðila á mikilvægum hugtökum, eins og íbúð í byggingu. Auk þess yrði skýrt kveðið á um samþættingu málaflokka og áherslu á bætta upplýsingagjöf um húsnæðismarkaðinn í stjórnarsáttmála.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og nokkrar umsagnir bárust. Greint er frá því í nefndaráliti og liggur það frammi. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill nefndin árétta sérstaklega örfá atriði, einkum í tengslum við gjaldtöku og setningu gjaldskrár.

Varðandi gjaldtöku kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra að embættið telji ekki unnt að líta svo á að ný 24. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, feli í sér auknar heimildir til gjaldtöku gagnvart Skattinum vegna miðlunar upplýsinga úr fasteignaskrá og tengdum skrám. Nefndin bendir á að Skatturinn greiðir ekki fyrir aðgang að gögnum úr þjóðskrá á grundvelli 92. gr. og 94. gr. laga um tekjuskatt. Nefndin tekur því undir ábendingu Skattsins og áréttar að ný 24. gr. laga um skráningu og mat fasteigna feli ekki í sér auknar heimildir til gjaldtöku.

Hvað setningu gjaldskrár varðar þá eru með frumvarpinu gerðar breytingar á fyrirkomulagi í tengslum við gjaldskrá vegna fasteignaskrár. Með breytingunum er lagt til að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fái heimild til að setja gjaldskrá vegna þjónustugjalda í stað þess að ráðherra staðfesti gjaldskrá og hún sé svo birt í Stjórnartíðindum. Nefndinni bárust athugasemdir við framangreinda breytingu á setningu gjaldskrár og þá sérstaklega hvort fyrirkomulagið dragi úr gagnsæi við setninguna. Nefndin bendir á að af eðli þjónustugjalda og réttmætis og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar leiðir að stjórnvöld verða ávallt að leggja viðhlítandi grundvöll að fjárhæð gjalds, þ.e. hvaða kostnaðarliðir falla undir gjaldtökuheimild og hver fjárhæð þeirra er. Af þessu leiðir að stjórnvöld verða að haga upplýsingum um kostnaðarlegan grundvöll í samræmi við þetta og borgarar og eftirlitsaðilar, svo sem ráðuneytið, umboðsmaður Alþingis og dómstólar, eiga að geta fengið upplýsingar um kostnaðarlegan grundvöll gjaldsins. Nefndin bendir á að þessar reglur gilda óháð því hvort ráðherra beri samkvæmt lögum að staðfesta gjaldskrár. Þar af leiðandi telur nefndin að framangreind breyting sé ekki til þess fallin að draga úr gagnsæi við setningu gjaldskrár.

Í bráðabirgðaákvæði II er gert ráð fyrir því að ráðherra skuli skipa starfshóp til að undirbúa aðskilnað þinglýsingarhluta fasteignaskrár frá öðrum hlutum hennar og flutning á kerfi þinglýsingabókar fasteigna frá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun yfir til sýslumanna. Á fundum nefndarinnar var bent á að orðalag ákvæðis til bráðabirgða þarfnaðist mögulegar lagfæringar í þá veru að starfshópnum yrði veitt meira svigrúm til að leita leiða við að sinna því hlutverki sem þar er mælt fyrir um. Mikilvægt er að orðalag ákvæðisins hindri ekki að starfshópurinn hafi frelsi til að leita að bestu tæknilegu lausninni með tilliti til þarfa hagsmunaaðila fyrir þjónustu hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og sýslumönnum. Orðalagsbreytingunni er ekki ætlað að breyta verkefni starfshópsins frá því sem lýst er í greinargerð með frumvarpinu.

Þá eru lagðar til minni háttar lagatæknilegar breytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið og þarfnast því ekki sérstakrar umfjöllunar. Vísast að öðru leyti til ítarlegrar umfjöllunar um breytingartillögur í nefndarálitinu.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Halldóra Mogensen, Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður velferðarnefndar, Orri Páll Jóhannsson og Óli Björn Kárason.

Virðulegur forseti. Það skiptir máli þegar við erum að færa verkefni á milli stofnana að vandað sé vel til verka og ég tel að það sé gert í þessu máli. Þetta er til þess fallið að auka skilvirkni í kerfinu sem vinnur með fasteignaskrá og gerir hlutverk Þjóðskrár einnig afmarkaðra og einfaldara í vöfum.