Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  14. júní 2022.

fiskveiðistjórn.

386. mál
[00:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta atvinnuveganefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar. Með frumvarpinu er stefnt að því að styrkja eftirlitshlutverk Fiskistofu og lagðar til breytingar á helstu lögum á sviði fiskveiðistjórnar sem varða eftirlit stofnunarinnar. Lagt er til að Fiskistofu verði í ákveðnum tilvikum heimilt að leggja dagsektir á hvern þann sem vanrækir að veita stofnuninni þær upplýsingar sem viðkomandi ber að veita lögum samkvæmt sem og að innheimta uppsafnaðar dagsektir. Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um heimild Fiskistofu til að birta opinberlega ákvarðanir um sviptingu veiðileyfa og afturköllun vigtunarleyfa. Enn fremur eru lagðar til breytingar sem miða að því að styrkja heimildir Fiskistofu til rafræns eftirlits.

Við fengum á fund okkar talsvert af gestum og umsagnir eins og kemur fram í nefndarálitinu. Við ræddum um eftirlitshlutverk Fiskistofu í ljósi markmiða frumvarpsins Meiri hlutinn leggur áherslu á að markmið laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, eru m.a. að stuðla að sjálfbærri og hagkvæmri nýtingu fiskstofna á Íslandsmiðum jafnframt því að stuðla að verndun þeirra, tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu og hámarksafrakstur til langs tíma fyrir íslensku þjóðina. Því telur meiri hlutinn nauðsynlegt að styrkja eftirlitshlutverk Fiskistofu en leggur áherslu á að lagaheimildir til eftirlits þurfi að vera skýrar.

Í ljósi þess að lagðar eru til breytingar sem styrkja heimildir Fiskistofu til rafræns eftirlits þá fjallaði nefndin um mat á nauðsyn vinnslu persónuupplýsinga en í umsögn Persónuverndar er gagnrýnt að í frumvarpinu sé ekki fjallað um mat á nauðsynlegri vinnslu persónuupplýsinga með hliðsjón af kröfum 71. gr. stjórnarskrárinnar og hvort nauðsyn eftirlitsins réttlæti þá skerðingu á friðhelgi einkalífs einstaklinga sem eftirlitið myndi fela í sér. Meiri hlutinn áréttar að takmarkanir á friðhelgi einkalífs þurfi ávallt að byggjast annars vegar á skýrri og sérstakri lagaheimild og hins vegar þurfi brýn nauðsyn að vera fyrir hendi. Meiri hlutinn telur að unnt hefði verið að skýra þessi atriði betur í greinargerð frumvarpsins. Með frumvarpinu er verið að veita eftirliti og þar með söfnun tiltekinna persónuupplýsinga lagastoð. Meiri hlutinn telur brýna nauðsyn vera fyrir hendi enda um að ræða mikilvægan lið í stefnu stjórnvalda um sjálfbærar og ábyrgar veiðar og að markmiðum aflamarkskerfisins sé náð. Unnt verði að fylgjast með og koma í veg fyrir að farið verði á svig við reglur um vigtun, brottkast og samþjöppun aflaheimilda.

Þá fjallaði nefndin um mat á áhrifum á persónuvernd vegna vinnslu persónuupplýsinga. Við umfjöllun málsins var nefndin upplýst um að Fiskistofa hefur unnið mat á áhrifum á persónuvernd vegna vinnslu persónuupplýsinga ásamt verklýsingu á notkun fjareftirlitsbúnaðar og hafa þessi gögn verið birt á vef Alþingis. Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um að æskilegt hefði verið að mat á áhrifum á persónuvernd vegna vinnslu persónuupplýsinga væri framkvæmt við undirbúning lagasetningar og að fjallað væri um forsendur matsins og niðurstöður þess í greinargerð með frumvarpinu. Meiri hlutinn telur mikilvægt að framangreind gögn hafi komið fram og að hægt sé að líta til þeirra ásamt öðrum lögskýringargögnum málsins. Meiri hlutinn bendir hins vegar á að umrætt mat á áhrifum á persónuvernd virðist ekki unnið í tengslum við framlagningu þessa frumvarps, eins og áður segir, og beinir því til ráðuneytisins og Fiskistofu að unnið verði mat á áhrifum á persónuvernd vegna þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem lögð er til með frumvarpinu og verður heimil, verði það samþykkt.

Loks fjallaði nefndin um rafrænt vöktunarkerfi í löndunarhöfnum en með frumvarpinu er lagt til að eftirlitsmönnum Fiskistofu verði heimill aðgangur að rafrænum vöktunarkerfum í löndunarhöfnum í þeim tilgangi að hafa eftirlit með löndun afla. Við umfjöllun málsins komu fram sjónarmið um að skýra þyrfti ákvæðið frekar og fjalla um í hvaða tilvikum Fiskistofa muni nýta þessa heimild. Meiri hlutinn bendir á að um er að ræða heimild til aðgangs að rafrænum vöktunarkerfum hafna séu þau til staðar. Frumvarpið felur ekki í sér skyldu löndunarhafna til að setja upp rafrænt vöktunarkerfi. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að við eftirlitið þurfi að huga að lögum um persónuvernd og gæta þess að eftirlit sé í samræmi við tilgang heimildarinnar, þ.e. að hafa eftirlit með löndun afla, að teknu tilliti til meðalhófs. Við í meiri hlutanum ítrekum þessi sjónarmið.

Við í meiri hlutanum leggjum til breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar rafræna skráningu afla þannig að tekinn sé af allur vafi um að skipstjórar skipa sem veiða samkvæmt sérveiðileyfi haldi einnig afladagbók. Í ákvæðinu er einnig gert ráð fyrir að skipstjórar sendi afladagbækur rafrænt til Fiskistofu áður en veiðiferð lýkur. Meiri hlutinn leggur til að í stað orðsins „rafrænt“ komi orðið „stafrænt“ til að mæta örri þróun í tæknilausnum við skráningu aflaupplýsinga.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar dagsektarákvæði frumvarpsins en ákvæði þess heimila Fiskistofu að leggja dagsektir á þá aðila sem vanrækja að afhenda stjórnvaldinu nánar tilgreindar upplýsingar. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að Fiskistofa búi yfir fullnægjandi úrræðum til þess að knýja á um t.d. afhendingu gagna og upplýsinga en tryggja þarf að viðkomandi sektir hafi viðunandi fullnustu- og varnaðaráhrif. Það er t.d. hægt að gera með því að taka tillit til fjárhagslegs styrkleika eftirlitsskyldra aðila og eðlis vanrækslu eða brots. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á fjárhæðum sekta, þ.e. að þær geti verið á bilinu 10.000 kr. til 1 millj. kr. og að heimilt verði að ákveða dagsektir sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri eftirlitsskylds aðila. Þá verði við ákvörðun um fjárhæð dagsekta heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Meiri hlutinn leggur einnig til að það verði heimilt að fella óinnheimtar dagsektir niður veiti aðilar síðar upplýsingar en þannig getur skapast hvati til breyttrar hegðunar. Þá verði fellt úr frumvarpinu hámark dagsekta enda hefur hámarkið eins og það er í frumvarpinu vart varnaðaráhrif. Loks verði ráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.

Í þriðja lagi, og var kannski það sem mest var til umræðu, er lögð til breyting er varðar notkun fjarstýrðra loftfara við eftirlitsstörf. Í umsögnum við málið kom fram gagnrýni á þetta ákvæði frumvarpsins þess efnis að gengið væri of nærri friðhelgi einkalífs einstaklinga með leynilegri vöktun á bátum og skipum. Rætt var um hvort mögulegt væri að kveða á um tilkynningarskyldu Fiskistofu um eftirlit með fjarstýrðum loftförum. Bent var á að slík skylda gæti dregið úr fælingarmætti eftirlitsins og markmiðum þess. Meiri hlutinn telur eðlilegt að stíga varlega til jarðar þegar um er að ræða nýtingu nýrrar tækni við eftirlit með fiskveiðum og telur sanngjarnt að Fiskistofa gefi út almenna tilkynningu áður en hún hefur eftirlit, t.d. á vef Fiskistofu, en ekki er gert ráð fyrir að slíkar tilkynningar verði svæðisbundnar eða afmarkaðar með tilteknum hætti, svo sem tímamörkum.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á ákvæði er varðar vinnslu persónuupplýsinga sem Fiskistofu er heimil í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum á sviði fiskveiðistjórnar að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga sem verða til við rafrænt eftirlit og um eignarhald útgerðarfélaga og annarra upplýsinga sem hinn skráði leggur í té. Meiri hlutinn leggur til breytingu á ákvæðinu til að skýra heimildir Fiskistofu til vinnslu persónuupplýsinga, m.a. í ljósi þess að líkur er á að Fiskistofu muni berast upplýsingar frá fleiri aðilum en hinum skráða.

Loks leggur meiri hlutinn til breytingu á ákvæði til bráðabirgða þess efnis að lengja heimild Fiskistofu til að fara í samstarf við útgerðaraðila um rafræna vöktun með myndavélum um borð í fiskveiðiskipum og lagt er til að heimildin nái til áranna 2022, 2023 og 2024. Þá eru að lokum lagðar til minni háttar eða lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar.

Að þessu sögðu leggur meiri hluti atvinnuveganefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir og sjá má á sérstöku þingskjali.

Undir álit meiri hluta atvinnuveganefndar rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Stefán Vagn Stefánsson, Gísli Rafn Ólafsson, Hildur Sverrisdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Þórarinn Ingi Pétursson. Þórunn Sveinbjarnardóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.