Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

dómstólar.

893. mál
[15:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er hv. þingmaður að viðra áhyggjur af því að afleiðingar þessara breytinga kunni að vera þær að starfsstöðvum á landsbyggðinni verði lokað komi til að mynda til þess að fjárframlög til dómstólanna verði skorin niður, að þá verði hægastur vandinn að skera niður starfsemi á landsbyggðinni. Í fyrsta lagi er fjöldi dómara lögfestur. Því verður auðvitað ekki breytt. Í öðru lagi, með skilningi á og tilliti til þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður viðrar hér og eru alveg fullgild til þess að hafa áhyggjur af, þá búum við þannig um málin í þessu frumvarpi að við lögfestum þessar starfsstöðvar. Og við gerum betur: Við lögfestum það að í minnstu stofnununum sem eru úti á landi verði starfsmönnum fjölgað, þar á meðal þeim sem geta fellt dóma, og við gefum heimildir til að nota nútímatækni til að greiða fyrir málum inn í dómskerfið. Því væri það alltaf meiri hluta Alþingis að ákveða það á hverjum tíma ef loka ætti einhverjum starfsstöðvum úti á landi. Þar sem við þekkjum vel til hér á þingi, bæði ég og hv. þingmaður sem viðraði þessar áhyggjur, þá vitum við að það myndi ekki ganga þrautalaust fyrir sig. Þetta er því staðan. Við teljum okkur vera að styrkja starfsemi úti á landi, tryggja hana og efla dómstigið á þessum stöðum þannig að það geti betur sinnt hlutverki sínu, veitt betri þjónustu til að mynda gagnvart lögmönnum sem þar búa á þeim svæðum, og dómstólarnir eru oft grundvöllur að þeirri starfsemi.

Hitt ber svo á að líta, að komið hefur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og í gögnum frá fjármálaráðuneytinu að hvatt sé mjög til þess að fækka stofnunum ríkisins til að hagræða í rekstri. Það erum við að gera með þessu og þar á meðal er mjög mikil áhersla lögð á svokallaðar örstofnanir, sem eru yfir 40 talsins. Þær eru einar sex í dómskerfinu eins og staðan er í dag.