Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

dómstólar.

893. mál
[15:24]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur fyrir góða ræðu. Ég er algerlega sammála nálgun hv. þingmanns, sem er að þetta eigi að sjálfsögðu að miðast út frá þjónustu við íbúa landsins, eins og hún sagði. Hagur hins almenna borgara, hvar á landinu sem hann býr, er það sem skiptir máli.

Ég tel umfjöllun hennar um 11. og 13. gr. vera mjög áhugaverða og á rökum reista. Málið er, að í þessu frumvarpi er verið að líta á þetta út frá hagræðingu dómstólsins, ekki út frá hag borgaranna. Ég hef t.d. flutt mál við Héraðsdóm Norðurlands eystra á Akureyri. Þar var fjölskipaður dómstóll, þrír dómarar. Einn af meðdómendum var héraðsdómarinn á Norðurlandi vestra og var hann kominn á Norðurland eystra til að taka þátt í dómstörfum þar. Að sjálfsögðu á að flytja til dómarana sjálfa, þar er hagræðið; með flutningi dómara og að þeir geti farið á milli héraða og embætta og tekið þátt í dómstörfum þar, en ekki að borgararnir séu í óvissu um hvar mál séu rekin. Eins og kemur fram í 11. og 13. gr., þá ert þú kannski íbúi í Reykjavík og málið er flutt á Ísafirði og sent þangað til afgreiðslu. Ég tek undir það að ríkið þurfi að sjálfsögðu að greiða flutningskostnað og annað slíkt, þá ertu hreinlega kominn út í tóma vitleysu. Þetta á að vera þjónusta við borgarana og ekkert annað.

Ég treysti því að Framsóknarflokkurinn muni gæta hagsmuna landsbyggðarinnar í þessu máli. Ég tel að þetta sé dæmigert mál þar sem hugsunarháttur vestan Ártúnsbrekku gildir, hérna í 101. Það verður að hafa hagsmuni hinna dreifðu byggða að leiðarljósi hér og þjónustu við hinar dreifðu byggðir úti á landsbyggðinni, ekki síst í Norðvestur- og Suðurkjördæmi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Má ekki treysta því að Framsóknarflokkurinn muni gæta að þeim atriðum sem hv. þingmaður taldi upp í ræðu sinni, að þetta mál verði skoðað miklu betur og þá lagt upp með að auka hagkvæmni og samstarf milli þeirra dómstóla sem nú eru í gildi, þeirra embætta sem nú eru til staðar (Forseti hringir.) og eru mjög mikilvæg fyrir þessi héruð?