Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

856. mál
[16:06]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að við séum að stíga það skref að tryggja þessa upplýsingamiðlun og tryggja þar með réttarstöðu og stuðning við þolendur heimilisofbeldis, því að þetta eru einstaklingar sem eru oft, alltaf, mjög brotnir, traustið er lítið og því þarf utanumhaldið að vera mjög gott og skýrt og vel að því staðið. Ég vonast svo til þess að við séum að stíga hér skref, eitt af mörgum, hvað varðar þessa upplýsingamiðlun og í rauninni þannig að við séum að taka niður veggi í þessu kerfi.

Mig langar svolítið að beina athyglinni að börnum í þessu samhengi og tala þá um að við séum að stíga enn þá stærra skref og séum með þessu líka að fara í það hvernig við ætlum að tryggja miðlun upplýsinga um heimilisofbeldi milli annarra kerfa; barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, sem við erum að gera hér, skóla og lögregluembætta. Það er svo mikilvægt að þegar það kemur upp heimilisofbeldi á heimili þar sem barn býr þá getum við látið öll kerfin tala saman. Hvernig ætlum við að láta allt kerfið taka utan um barnið í þessu þannig að skólinn geti veitt stuðning, barnaverndaryfirvöld geti veitt stuðning og félagsþjónustan og lögreglan sé með það á hreinu hvernig eigi að miðla þessum upplýsingum og að við séum að taka niður þessi síló? Um leið og við erum að tala um að við séum búin að ná ótrúlegum árangri í þessum málaflokki þá þurfum við með þessu skrefi, sem mér finnst frábært að sé komið á þennan stað — en þá vil ég bara að við séum að ganga lengra í kjölfarið á þessu því að ég held að það skipti öllu máli hvernig við ætlum að stíga inn í þessi mál til framtíðar, að við séum að tryggja upplýsingamiðlun og, eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir, að það sé þá með samþykki þess sem fær þjónustuna og að við náum einhvern veginn betur utan um þetta því að þessir einstaklingar sem verða fyrir þessum trúnaðarbresti á sínum friðhelga stað eiga það skilið og börnin okkar líka. Ég bara þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að koma með þetta mál hingað inn því að ég held og ég veit að þetta skiptir mjög miklu máli. Ég segi bara: Takk.